Starfsmenn bækistöðvar Faxaflóahafna unnu að því síðasta vetrardag að setja upp eimreiðina Minør á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík.
Þegar eimreiðin er sett upp við höfnina boðar það komu sumarsins. Hún er yfirleitt sett upp nálægt sumardeginum fyrsta og tekin niður í kringum fyrsta vetrardag. Eimreiðin vekur ætíð mikinn áhuga, ekki síst hjá börnunum.
Nú eru 104 ár liðin síðan eimreiðarnar Minør og Pioner luku verki sínu við gerð Gömlu hafnarinnar, sem var geysimikil framkvæmd á sínum tíma.
Eimreiðin Minør hefur ávallt verið í vörslu Faxaflóahafna yfir vetrartímann á meðan eimreiðin Pioner hefur verið varðveitt allt árið um kring á Árbæjarsafni.
Eimreiðarnar voru keyptar hingað til lands vegna hafnargerðarinnar. Járnbraut var lögð frá Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn og síðar einnig frá Skólavörðuholtinu. Þar var tekið grjót sem sett var á vagna sem eimreiðarnar drógu niður að höfn.
sisi@mbl.is