Kortafyrirtækið Valitor hefur fengið fjölda tilkynninga vegna svika sem korthafar hafa lent í undanfarið. Þá hafa korthafar fengið smáskilaboð eða tölvupósta í nafni DHL og Póstsins þar sem þeim er tjáð að pakki sé á leiðinni til þeirra.
Skilaboðunum fylgir hlekkur og ef ýtt er á þann hlekk er notandi beðinn um að færa inn kortaupplýsingar. Þær upplýsingar eru síðan misnotaðar og geta einstaklingar staðið uppi með töluvert fjárhagslegt tjón.
Jónína Ingvadóttir, deildarstjóri í markaðsdeild Valitors, segir einföldu skilaboðin til fólks vera að smella ekki á hlekkina, sérstaklega ef það á ekki von á pósti. Ekki eigi undir nokkrum kringumstæðum að gefa upp korta- eða persónuupplýsingar á síðunni sem hlekkurinn tengist. Enn fremur er mikilvægt að gefa ekki upp öryggiskóða sem berst með smáskilaboðum til að ljúka við greiðsluna.