Afar fjörlega var teflt í fyrstu umferð Íslandsmótsins í skák í gær og lauk engri skák með jafntefli. Mesta athygli vakti skák tveggja stigahæstu manna mótsins, Hannesar Hlífars Stefánssonar og Hjörvars Steins Grétarssonar.
Svo fór að Hjörvar vann afar góðan sigur – eftir mjög vel teflda skák – þrátt fyrir að stýra svörtu mönnunum að því er segir í tilkynningu.
Helgi Áss Grétarsson vann Guðmund Kjartansson sem hefur titil að verja í spennandi skák. Jóhann Hjartarson nýtti sér reynsluna til fulls þegar hann vann hinn 18 ára Vigni Vatnar Stefánsson. Bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnssynir unnu báðir sínar skákir. Bragi vann Alexander Oliver Mai og Björn lagði Sigurbjörn Björnsson að velli.
Önnur umferð fer fram í dag og hefst kl. 15. Þá mætast meðal annars Jóhann og Hjörvar. Einnig tefla saman stórmeistararnir Bragi og Helgi Áss.
Vegna sóttvarnareglna geta áhorfendur ekki mætt á skákstað. Beinar útsendingar frá mótsstað eru á skak.is.
10 keppendur taka þátt. Teflt er kl. 15 alla daga og lýkur mótinu föstudaginn 30. apríl.