Staðan í kórónuveirufaraldrinum innanlands lítur betur út í dag en í gær, þó erfitt sé að meta tölur dag frá degi. „Auðvitað vonumst við til að þetta verði svona áfram,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is, sem horfir helst í hversu margir greinist utan sóttkvíar.
Tíu greindust með Covid-19 innanlands í gær og af þeim var einungis einn utan sóttkvíar.
„Það er fólk sem hefur ekki komið fram í rakningu og veit ekkert hvernig það smitast,“ segir Þórólfur og bætir við að smit utan sóttkvíar séu betri mælikvarði á útbreiðslu veirunnar í samfélaginu en þau sem greinist og eru í sóttkví við greiningu.
Af átta smitum utan sóttkvíar sem greindust í fyrradag talaði Þórólfur í gær um að tvö þeirra virtust ekki tengjast fyrri smitum.
„Þótt rakningin geti ekki tengt þau þá sést með raðgreiningu hvaðan smitið hefur komið og þannig getum við fengið betri mynd á þetta. Smitin sem hafa greinst undanfarið tengjast veirunum sem hafa verið að valda hópsmitum sem hafa verið í gangi. Eitt smit tengist landamærasmiti sem varð fyrir nokkrum vikum en við vitum ekki nákvæmlega hvernig því hefur reitt af.“
Stór dagur verður í sóttkvíarsýnatöku í dag þar sem þeir sem hafa verið í sóttkví undanfarna viku eftir að hópsmit brutust út síðastliðinn föstudag fá úr því skorið hvort þeir séu með veiruna.
„Það á ekki að koma á óvart að við greinum smit hjá fólki sem er í sóttkví. Það er viðbúið að hluti af þeim muni greinast, þetta er fólk sem er útsett fyrir smiti og það er viðbúið að það greinist hjá hluta fólksins. Um 5% þeirra sem eru í sóttkví er búist við að veikist af veirunni,“ segir Þórólfur um það.