Húsvíkingar bíða nú spenntir eftir því að sjá bæinn sinn sýndan á Óskarsverðlaunahátíðinni sem fer fram aðfaranótt mánudags. Mikil stemning hefur myndast í bænum og munu ljós lýsa í mörgum gluggum fram eftir nóttu.
Lagið Húsavík – My Home Town úr Eurovision-mynd Wills Ferrells er tilnefnt til verðlaunanna og var myndband við lagið tekið upp á Húsavík um liðna helgi.
Silja Jóhannesdóttir situr í stjórn Húsavíkurstofu og segist finna fyrir mikilli stemningu í bænum og tilhlökkun. „Bæjarbúar fyllast einhverri jákvæðni þegar eitthvað svona skemmtilegt gerist. Það eru allir að taka sig saman og taka þátt í gleðinni,“ segir Silja.
Hún segir fólk vera vongott fyrir verðlaunahátíðina en allir séu þó búnir að stilla væntingum í hóf. „Það er mikill sigur fyrir okkur hérna á Húsavík að fá lagið tilnefnt,“ segir Silja.
Hún segir að um liðna helgi hafi bærinn fyllst af lífi þegar myndbandið var tekið upp og söngkonan Molly Sandén hafi veitt þeim mikinn innblástur.