„Þetta eru stór verðlaun sem heiður er að fá. Ég átti ekki von á að hljóta þau. Margir góðir knapar eru í hópnum en mér gekk mjög vel,“ segir Laufey Rún Sveinsdóttir frá Sauðárkróki sem var efst í keppni um Morgunblaðsskeifuna sem er ein helstu verðlaunin á Skeifudegi nemenda Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.
Hestamannafélag nemenda, Grani, efnir á hverju ári til keppni á sumardaginn fyrsta og er keppt um ýmis verðlaun. Fyrirkomulagið var annað en venjulega að þessu sinni þar sem áhorfendur gátu ekki komið í reiðhöllina á Mið-Fossum og var atburðinum því streymt á netinu.
Morgunblaðsskeifan er veitt þeim nemanda sem nær hæstu meðaleinkunn úr verklegum reiðmennskuprófum. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1957. Ellefu nemendur tóku þátt í keppninni í ár. Laufey Rún fékk 9,1 í einkunn, Steindóra Ólöf Haraldsdóttir varð í öðru sæti og Helga Rún Jóhannsdóttir í því þriðja, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.