„Þetta höfum við ekki séð“

Hraun rennur í Geldingadölum.
Hraun rennur í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru þannig upplýsingar að það felast í þessu ótrúleg tækifæri, fyrir okkur sem erum að fást við svona lagað dags daglega. Þarna fáum við góða innsýn í ferli sem við höfum ekki fengið áður,“ segir Sæmundur Ari Halldórsson, jarðefnafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Hann ræddi við mbl.is um nýjar niðurstöður Jarðvísindastofnunar á rannsóknum á efnasamsetningu kviku í eldgosinu í Geldingadölum sem voru birtar í dag.

Spennandi niðurstöður

Hann segir möttulinn gefa frá sér mismunandi bráðir, sem vísindamenn horfa nú á koma upp á yfirborðið. „Þetta höfum við ekki séð, ekki að minnsta kosti í allra síðustu gosum hér á landi. Borið saman við til dæmis Holuhraun, þá er þetta gjörólíkt,“ segir Sæmundur.  

„Þetta eru mjög spennandi niðurstöður. Þær komu okkur á óvart, ekki að öllu leyti þó.“ 

Í niðurstöðunum á rannsóknum á efnasamsetningu kvikunnar kemur meðal annars fram að efnasamsetning kvikunnar hefur breyst með tímanum. 

„Breytingin kemur best fram í þyngdarhlutföllum utangarðsefna (þeirra sem velja kvikubráð fram yfir kristalla) og túlka má á tvenna vegu. Annars vegar kunna bráðir mismunandi möttulefna að blandast saman áður en kvikan rís í gegnum jarðskorpuna. Hins vegar gæti kvika mynduð við minni hlutbráðnun möttulefnis verið farin að gjósa í auknum mæli,“ segir í niðurstöðum vísindamanna.

„Seinni túlkunarmöguleikinn bendir til minni kvikuframleiðslu úr möttulefni sem með tíð og tíma mun leiða til gosloka. Fleiri mælingar á samsætuhlutföllum munu hjálpa til við að velja á milli þessara túlkunarmöguleika.“

Ný þekking myndast

Sæmundur segir að of snemmt sé að segja til um hvort kvikan sé nú að koma af meira dýpi en fyrr í gosinu, frekari gögn þurfi til. 

„En möguleikarnir til að skorða slíkt eru sannarlega fyrir hendi þarna. Þarna erum við að fá einstakt tækifæri til að ramma betur inn kvikuferli sem við höfum ekki fengið áður, og komast nær því að skilja þau.“

Hann segir niðurstöðurnar undirstrika enn betur hversu merkilegt gosið er og merkilegt fyrir jarðvísindasamfélagið að verða vitni að. 

Erum við að tala um nýja þekkingu?

„Já, ég myndi alveg leyfa mér að fullyrða það. Samanborið við þau gos sem hafa verið í gangi síðustu áratugi þá erum við að fá annars konar innsýn inn í kvikuferlin sem eru þarna undirliggjandi.“

Sæmundur segir það ekki spurningu að þessi nýja þekking nýtist á heimsvísu. „Þetta eru upplýsingar sem eiga erindi á alþjóðavísu, ekki bara til að skilja myndun úthafseyja heldur líka úthafshryggja. Ísland er þessi stórkostlega blanda af úthafseyju og úthafshrygg og þarna fáum við tækifæri til að skilja betur myndun hvors tveggja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert