Innflytjandi víns sem framleitt er á landtökusvæði Ísraels á Vesturbakkanum kveðst hafa gerst sekur um hugsunarleysi þegar hann ákvað að kaupa bretti af rauðvíni frá framleiðandanum Psagot og flytja til Íslands til sölu. Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Vínbúðarinnar segir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ekki hafa leyfi til að hafna vínum í sölu nema efnislegar ástæður, sem tilgreindar séu í lögum um verslun með áfengi og tóbak, séu til staðar.
Árni Hafstað er eigandi örbrugghússins Gæðings öls í Skagafirði sem flytur vínið inn. Í samtali við mbl.is segir Árni að hann sé ekki vanur að flytja inn vín og að málið hafi einfaldlega atvikast þannig að hann hafi smakkað vínið og þótt það gott og í kjölfarið sett sig í samband við framleiðandann sem benti honum á heildsala þess í Frakklandi. Hann hafi fest kaup á einu bretti frá framleiðandanum og fengið leyfi fyrir sölu þess í Vínbúðinni.
Sala á víninu hafi hafist í febrúar og um mánuði seinna hafi hann orðið var við umræður um uppruna þess á Facebook, auk þess sem einhverjir hafi sett sig í samband við hann vegna málsins. „Ég hafði bara ekki séð þennan vinkil fyrir mér,“ segir Árni og bætir því við að hann muni líklega ekki kaupa vínið aftur. Hins vegar hafi hann lagt talsvert út fyrir kaupunum, flutningunum og leyfinu og það bæti stöðu einskis að taka vínið úr sölu úr því sem komið er.
„Ég er búinn að koma mér í leiðinlega stöðu, sem ég vonandi kemst út úr án þess að verða fyrir miklu fjárhagslegu tjóni. Þetta var bara hugsunarleysi og enginn brotavilji hjá mér að styðja landtökubyggðirnar. En vínið er rosalega gott og ég helli því ekki, það gerir engum gott nema kannski lifrinni í mér.“
Í samtali við mbl.is segir Sveinn Víkingur Árnason, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Vínbúðarinnar, að það sé ekki Vínbúðarinnar að taka á málinu. „Það er bara þannig að samkvæmt lögum höfum við ekki leyfi til að hafna vínum í sölu, ekki nema þá að eitthvert yfirvald hafi tekið ákvörðun um að ekki megi flytja vöruna inn.“
Í lögum um verslun með áfengi og tóbak er kveðið á um að jafnræðis skuli gætt við val á vöru og ákvörðun um sölu og dreifingu áfengis og er ÁTVR einungis heimilt að hafna áfengi ef varan sjálf, umbúðir hennar eða markaðssetning höfðar sérstaklega til barna og ungmenna eða hvetur til óhóflegrar neyslu áfengis, svo fátt eitt sé nefnt.
Sveinn Víkingur staðfestir hins vegar að upprunalega hafi upprunaland vínsins verið skráð í Ísrael, en eftir að ábendingar tóku að berast ÁTVR var ákveðið að taka út að upprunaland vínsins væri Ísrael og er sá reitur nú auður á vef Vínbúðarinnar.
Samkvæmt tilkynningu frá félaginu Íslandi-Palestínu, sem vakti athygli á málinu, hefur þingsályktunartillaga um merkingu á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu velkst um í þinginu frá árinu 2012 og ekki hlotið afgreiðslu.