Karítas Ríkharðsdóttir
Áfram verður skert starfsemi á leikskólanum Jörfa eftir helgi þrátt fyrir að fjölskyldur sem greindust neikvæðar fyrir Covid-19 hafi losnað úr sóttkví í gær.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við mbl.is að um 65 hafi greinst smitaðir í tengslum við hópsmitið á Jörfa á dögunum. Þar séu með talin börn, starfsfólk og fjölskyldur.
Áfram er nokkur fjöldi starfsfólks veikur vegna Covid-19-sýkingar og verður því ekki hægt að opna Jörfa að fullu eftir helgi. Leikskólinn hefur verið sótthreinsaður hátt og lágt og er húsnæði skólans tilbúið fyrir opnun.
Unnið er að lausnum við að manna leikskólann og verið að skoða hvort hægt er að færa til starfsfólk.
Að sögn Helga hefur skóla- og frístundasvið ekki fengið upplýsingar um að frekari dreifing á Covid-19 hafi orðið í Álftamýrarskóla né í Sæmundarskóla.