Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis ákvað 7. apríl að leggja dagsektir á Vöku frá og með 1. maí þar til „svæði Vöku á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi samanber bréf heilbrigðiseftirlits 26. janúar sl.
Fjárhæð dagsekta er ákveðin 20.000 kr. á dag. Ef ekki verður brugðist við innan hæfilegs tíma mun heilbrigðisnefnd endurskoða fjárhæð dagsekta,“ segir í fundargerð.
Þar segir einnig að Vaka hafi verið áminnt formlega með bréfi 24. febrúar í samræmi við bókun heilbrigðisnefndar á 59. fundi. Þá var tilkynnt að áformað væri að beita frekari þvingunarúrræðum og að til skoðunar væri að leggja á dagsektir til að knýja á um að svæði fyrirtækisins á Leirvogstungumelum verði hreinsað. Fyrirtækið fékk frest til að andmæla ákvörðuninni innan þriggja vikna. Engin andmæli bárust, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgublaðinu í dag.