Færir sig til baka og gefur kost á sér í Reykjavík

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, gefur kost á sér í annað sætið á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Þetta tilkynnir hann á facebooksíðu sinni, en í gær upplýsti Kolbeinn að hann myndi ekki taka sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar hafði hann gefið kost á sér í forvali flokksins og sóttist hann eftir fyrsta sæti listans. Niðurstaðan varð hins vegar fjórða sætið. Í kjölfarið var skorað á hann að fara fram í Reykjavík, en í dag er hann þingmaður flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Í tilkynningunni segir Kolbeinn að yfirlega síðustu vikna hafi fært sér heim sanninn um að hann brenni fyrir pólitík. „Ég hef löngun og vilja til að halda áfram að starfa með því góða fólki sem hefur leitt hreyfinguna og íslenskt samfélag síðustu ár.“

Kolbeinn segir að hlutverk forystu flokksins sé að halda sjónarmiðum Vinstri-grænna á lofti og „benda á það góða sem ríkisstjórnin hefur gert, ekki síst okkar ráðherrar, og taka þátt í umræðu innan og utan þings, þó hún sé stundum býsna óvægin“.

Segist hann jafnframt ekki vera í nokkrum vafa að það hafi verið gæfa að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi setið við völd síðustu ár. Sjálfur sé hann öflugur liðsmaður fyrir flokkinn. „Ég tel mig hafa ýmislegt fram að færa og hafa sýnt það á síðustu árum að ég sé öflugur liðsmaður. Ég vil vera það áfram og gef því kost á mér í 2. sætið á lista VG í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.“

Hann segir framboðið á Suðurlandi hafa verið áhættu sem hann tók og hafi ekki gengið upp. Það sé hins vegar nægur tími til þess síðar á lífsleiðinni að búa í öðru umhverfi en á höfuðborgarsvæðinu sem hann hafi viljað gera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert