Gasmengun gæti náð til höfuðborgarsvæðisins á morgun

Búast má við að gasmengun frá eldgosinu nái yfir byggð …
Búast má við að gasmengun frá eldgosinu nái yfir byggð á norðvestanverðum Reykjanesskaga í dag og yfir höfuðborgarsvæðið snemma á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag er spáð 10-15 m/s og dálítill súld við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Gæti það valdið lélegu skyggni í allan dag, en það sést, eða sést ekki eftir því hvernig horft er á málið, ágætlega í myndavél mbl.is frá svæðinu. Búist er við að það bæti í úrkomu þegar líður á daginn, en hiti er áætlaður á bilinu 6 til 9 stig.

Lægir í nótt með vestan- og suðvestanátt, en stöku skúrum. Snýst í norðvestan 3-6 m/s í fyrramálið, en norðlæga átt 5-10 m/s eftir hádegi og léttskýjað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðbragðsaðilum á Suðurnesjum.

Gert er ráð fyrir að gas frá gosinu muni leggja yfir byggð á norðvestanverðum Reykjanesskaga í dag, en í nótt þegar vindurinn snýst í suðvestan og síðan norðvestan mun gasmengun dreifast til austurs í fyrstu og gæti svo náð til höfuðborgarsvæðisins á milli 5 og 10 í fyrramálið. Um hádegi er svo gert ráð fyrir að norðanáttin dreifi gasinu til suðurs.

Þá er líklegt að mengun safnist í lægðum við gosstöðvarnar í fyrramálið og seint annað kvöld, en á öðrum tímum er nægur vindur til að koma í veg fyrir það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert