Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk á öðrum tímanum í nótt tilkynningu um ölvaðan erlendan ferðamann sem var til vandræða á hóteli í austurbænum í Reykjavík. Átti maðurinn að vera í sóttkví, en hunsaði öll fyrirmæli. Var hann í kjölfarið handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Fyrr um nóttina hafði lögreglu verið tilkynnt um árás í Fossvogshverfi, að tveir menn hefðu ráðist á einn. Hlaut sá sem fyrir árásinni varð hnefahögg í gagnauga og var með áverka eftir höggin. Árásarmennirnir voru farnir af vettvangi, en fram kemur hjá lögreglunni að vitað sé hverjir þeir eru.
Rétt eftir miðnætti hafði lögreglan einnig afskipti af ökumanni í miðbænum sem var að spóla á bifreið sinni þannig að hjólbarði sprakk með miklum hávaða. Var ökumaðurinn ekki talinn hafa sýnt næga tillitssemi eða varúð.