„Það er miður að við skulum ekki ná að lenda þessu máli. Það hefur afleiðingar fyrir svæðið. Ég held að ekki sé ágreiningur um að þetta er mjög mikilvæg framkvæmd, sérstaklega út frá öryggi en einnig samkeppnishæfni og atvinnuuppbyggingu.“
Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um stöðu undirbúnings við Suðurnesjalínu 2.
Landsnet hefur lengi undirbúið að leggja aðra línu til Suðurnesja. Nú hafa þrjú sveitarfélög á línuleiðinni samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi en það fjórða, Sveitarfélagið Vogar, synjaði umsókn Landsnets.
Þórdís Kolbrún lagði fram minnisblað um stöðu málsins á fundi ríkisstjórnar í gærmorgun. Hún tekur fram að það hafi verið gert til að upplýsa ríkisstjórnina, hún hafi ekki lagt til neinar sértækar ráðstafanir. Spurð hvað sé til ráða segir Þórdís Kolbrún að unnið sé að lagabreytingum um einföldun regluverksins sem vonandi leiði til þess að mál af þessu tagi komi síður upp.