Forlagið Editions Métailié í París hefur tryggt sér útgáfuréttinn á skáldsögunni Bróðir eftir Halldór Armand í Frakklandi. „Þetta er auðvitað bara stórkostlegt,“ sagði Halldór í frétt í Sunnudagsblaðinu. „Margir af okkar flottustu höfundum hafa komið út hjá Editions Métailié. Ég lít á það sem mikinn heiður og stórt skref fyrir mig að vera gefinn út í Frakklandi í fyrsta skipti.“
Í tilkynningu um söluna á útgáfuréttinum á síðu umboðsskrifstofu Halldórs á Facebook er fyrir hönd franska forlagsins vitnað í þýðandann Jean-Christophe Salaün, sem þýtt hefur marga íslenska höfunda á frönsku og mun væntanlega þýða Bróður. „Ég hef nú nú fylgst með Halldóri Armand í nokkur ár og alltaf haft bækur hans í miklum metum,“ segir Salaün. „Bróðir er engin undantekning. Sagan er margslungin og snjöll og fallegur og nútímalegur stíll ber hana uppi. Persónurnar eru flóknar og veita svigrúm til djúpra hugleiðinga um áföll og mannlega náttúru almennt. Engu að síður tekst að gera hana mjög skemmtilega aflestrar. Halldór Armand er einstök rödd í íslenskum bókmenntum.“
Bróðir kom út hér á landi fyrir jólin og er væntanleg á frönsku á næsta ári.