Lífsskoðunarfélag fékk ekki ókeypis lóð

Svona mun kirkjan líta út samkvæmt hugmyndum arkitekts. Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins …
Svona mun kirkjan líta út samkvæmt hugmyndum arkitekts. Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins fékk lóðina endurgjaldslaust. Teikning/Arkiteo

Borgarráð samþykkti á fundi nýlega að synja umsókn DíaMats – félags um díalektíska efnishyggju um að fá úthlutað lóð í Reykjavík án endurgjalds, þ.e. með niðurfellingu gatnagerðargjalds. Þar með lýkur fjögurra ára baráttu félagsins, án árangurs. Málið hefur komið til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg, sveitarstjórnarráðuneytinu og umboðsmanni Alþingis.

Mál þetta nær allt aftur til ársins 2017 þegar lífsskoðunarfélagið DíaMat fór þess á leit við Reykjavíkurborg að fá úthlutað lóð án endurgjalds á grundvelli 5. gr. laga um kristnisjóð nr. 35/1970. Erindi DíaMats, undirritað af Vésteini Valgarðssyni, var fyrst lagt fram á fundi borgarráðs þann 31. maí 2017 sem hluti af embættisafgreiðslum skrifstofu borgarstjórnar. Samþykkt var á fundinum að senda málið skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til meðferðar. Svar skrifstofunnar til DíaMats, dags. 31. ágúst 2017, þar sem umsókninni var hafnað, var sent öllum borgarfulltrúum. DíaMat mótmælti synjuninni og benti á að öðrum skráðum trúfélögum hefði verið úthlutað ókeypis lóðum, þ.e. Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, við Mýrargötu, Ásatrúarfélaginu, í Öskjuhlíð, og Félagi múslima, við Suðurlandsbraut. Umsókn DíaMats byggðist á jafnræðisreglunni og banni við mismunun á grundvelli trúarskoðana.

Ákvörðun var talin ólögmæt

Jafnframt kærði DíaMat ákvörðunina til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem kvað upp lokaúrskurð sinn þann 24. mars sl. Með úrskurðinum var hin kærða ákvörðun talin ólögmæt þar sem ekki var talið að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hafi haft umboð til þess að taka slíka fullnaðarafgreiðslu máls. Með vísan til þeirrar niðurstöðu var óskað eftir því að borgarráð synji umsókninni, svo tryggt yrði að settum reglum yrði framfylgt.

Vésteinn Valgarðsson.
Vésteinn Valgarðsson. Ljósmynd/Aðsend

DíaMat-félagið kærði upphaflega synjun Reykjavíkurborgar til ráðuneytisins í júlí 2018. Í apríl 2019 kvað ráðuneytið upp úrskurð í málinu þar sem kröfu kæranda var synjað og ákvörðun Reykjavíkurborgar staðfest. Í kjölfarið leitaði DíaMat til umboðsmanns Alþingis sem sendi frá sér álit í apríl 2020. Var það niðurstaða umboðsmannsins að úrskurður ráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við lög og beindi því til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar á ný. Það var gert og niðurstaða ráðuneytisins tilkynnt 24. mars sl.

Í greinargerð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, sem lögð var fyrir borgarráð í síðustu viku, kemur fram að umfangsmikil breyting var gerð á lögum um skráð lífsskoðunar- og trúfélög í ársbyrjun 2013 þar sem gildissvið laganna var útvíkkað þannig að mun fleiri félög gætu í kjölfarið fengið skráningu. Reykjavíkurborg hafi ekki úthlutað lóð til skráðra lífsskoðunar- og trúfélaga án endurgjalds frá lagabreytingunni. Ekki sé óeðlilegt að slík lagabreyting hafi áhrif á stjórnsýsluframkvæmd og það sjónarmið sé staðfest í úrskurði ráðuneytisins frá 24. mars sl. Fram kemur í greinargerð skrifstofu borgarstjóra og borgarritara að borgin eigi hvort eð er ekki lóð á lausu til úthlutunar.

Söfnuðir hafi ekki áhrif

DíaMat var stofnað 2015 og fékk viðurkenningu innanríkisráðuneytisins sem skráð lífsskoðunarfélag 2016. Félagar eru rúmlega 150 talsins.

Í erindi sem félagið sendi Alþingi árið 2019 sagði m.a.: „Trúarbrögð ættu ekki að hafa áhrif á hvernig landinu er stjórnað, og alls ekki á hvernig mannréttindum er háttað [...] DíaMat skorar því á þingmenn að láta ekki umsagnir sértrúarsafnaða, hvorki stórra né lítilla, hafa áhrif á störf sín.“ Forstöðumaður félagsins frá upphafi er Vésteinn Valgarðsson. Félagið hugðist reisa 600-750 fermetra skála og óskaði eftir „lóð á aðgengilegum stað, ekki afskekktum og sæmilega áberandi“ hjá borginni.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert