„Ég man þessa atburði eins og þeir hefðu gerst í gær. Þeir voru ógnvekjandi,“ segir Heimir Brynjúlfur Jóhannsson, fyrrverandi prentsmiðjustjóri og bókaútgefandi. Hann fæddist á Grenivík 1. maí 1930 og ólst þar upp til sjö ára aldurs. Heimir var rúmlega fjögurra ára þegar jarðskjálftinn mikli, sem oft er kenndur við Dalvík, reið yfir 2. júní 1934.
„Ég var ásamt Birgi eldri bróður mínum að leik við uppistöðulón ofan við læknisbústaðinn á Grenivík, þá vorum við fjögurra og fimm ára gamlir. Við áttum litla leikfangabáta sem við sigldum á lóninu og vorum að ljúka við að byggja litla bryggju út í lónið. Við stóðum á henni og vorum að reyna traustleikann og burðarþolið.
Þá hófust hamfarirnar með miklum látum. Jörðin nötraði og gekk upp og niður. Vatnið í lóninu þyrlaðist upp í loftið og við lá að við féllum af bryggjunni. Það greip okkur ofsahræðsla. Við hlupum niður fyrir læknisbústaðinn.“
Foreldrar Heimis, þau Jóhann J. Kristjánsson, héraðslæknir í Höfðahverfislæknishéraði, og frú Inga Guðmundsdóttir, höfðu setið Grenivíkurjörðina frá 1928. Þau bjuggu í læknisbústaðnum sem áður hafði verið prestssetur og voru búin að koma upp stóru búi samhliða læknisstörfum Jóhanns. Eldri bræður Heimis, Haraldur og Guðmundur, voru ásamt Ingu móður sinni að herfa túnið þegar skjálftinn kom. Tveir hestar drógu herfið.
„Hestarnir trylltust við hamfarirnar en það tókst að róa þá,“ sagði Heimir. „Túnsléttan gekk í bylgjum líkt og hafflötur eftir vindóróa. Það varð mikið hrun í fjöllunum beggja vegna fjarðarins. Það var stórbrotið að sjá rykmekkina sem þyrluðust upp allt frá Ólafsfjarðarmúla í norðri og inn eftir öllum firðinum, alveg inn í Svarfaðardal. Það varð líka töluvert hrun úr fjöllunum á Látraströnd og eins nokkurt hrun úr sjávarbökkum út að Látrum. Á þessum tíma voru nokkrir bæir í byggð út með Látraströndinni.“ Heimir rifjaði upp bæjarnöfn eins og Árbakki, Finnastaðir, Hjalli, Hringsdalur, Jaðar, Svínárnes, Steindyr, Sker, Grímsnes og gamla verstöðin Látur. Bæirnir fóru í eyði um miðja 20. öld.
Jóhann héraðslæknir sagði frá jarðskjálftanum í bókinni Leifturmyndir frá læknadögum, sem Bókamiðstöðin, bókaútgáfa Heimis, gaf út 1970.
Jóhann kvaðst hafa ákveðið að fá sér blund eftir hádegismatinn, enda hafði hann vakað að mestu tvær undanfarnar nætur vegna læknisstarfa. Það var runninn á hann svefnhöfgi þegar hann heyrði ógurlegan hvin.
„Tók húsið að hristast ofsalega og fannst mér það ætla að velta um koll í vesturátt, en svo tók það að hristast fram og til baka. Ég reis upp og ætlaði að komast út úr rúminu, en komst aldrei nema á fjóra fætur á rúmdýnunni, sem var harðstoppuð gormadýna. Rann ég þarna fram og aftur, því ég sá fram á, að tilgangslaust væri fyrir mig að reyna að stíga út fyrir rúmstokkinn, ég mundi þegar liggja flatur á gólfinu. það var alls ekki stætt,“ skrifaði Jóhann.
Honum fannst kippurinn langur. Þegar jarðskjálftinn dvínaði stóð hann upp og gekk að glugganum. Þá blasti við moldar- og rykveggur vestan fjarðarins. Hann sá að fólk hafði flúið út úr húsum og kvenfólk sat flötum beinum á jörðinni. Jóhann sá elstu synina halda í taumana á prjónandi hestunum úti á túni.
„Öll húsgögn í svefnherberginu, nema hjónarúm voru á tjá og tundri. Meðan á kippnum stóð, heyrði ég afarmikið brothljóð, eins og gler væri að brotna, en ég áttaði mig ekkert á því þá, hverju það sætti, fyrr en síðar.“ Jóhann áræddi að fara niður stigann. „Í eldhúsinu var telpan með yngsta soninn í fanginu. Hún var sýnilega skelkuð, sem von var. Bæði hún og ekki síður drengurinn voru alsett rauðum slettum á höfði og í andliti. Ég spurði hvort þau hefðu dottið og meitt sig. Telpan kvað nei við því, og er ég fór að athuga þessar rauðu slettur, sá ég strax að ekki var um blóð að ræða, og engin sár fann ég á þeim.“
Hann fór út og athugaði með skemmdir sem höfðu orðið víða. Þegar Jóhann kom aftur inn fann hann torkennilegan þef. Yfir eldhúsinu var súðarherbergi með einföldu trégólfi. Þar var apótek héraðslæknisins. Þegar hann opnaði hurðina var ljótt um að litast. „Megnið af lyfjabirgðunum lá í einni kássu á gólfinu, og flest glösin mölbrotin. Var megn óþefur þar inni og rauk upp úr hrúgunni. Ég átti glös með salstsýru, brennisteinssýru og saltpéturssýru, og þegar sýrurnar blönduðust ýmsum öðrum efnum, mynduðust efnasambönd sem reyk lagði af. Og nú fékk ég skýringu á rauða litnum á drengnum og telpunni.
Meðal annars átti ég í lyfjabúðinni hátt í flösku af rauðum ávaxtalit. Sú flaska hafði einnig brotnað og liturinn lekið niður í eldhús um rifur á gólfinu og lent á telpunni og drengnum.“
Það var mikil vinna að þrífa herbergið. Óþefurinn hvarf ekki fyrr en eftir heilt ár þar sem gólfið varð gegnsósa af lyfjunum.
Útihús eins og fjós, fjárhús, hesthús og hlöður skekktust og hrundu meira eða minna. Læknisbústaðurinn var tveggja hæða timburhús sem stóð á hlöðnum steinlímsbundnum grunni. Það var klætt að innan og utan með panel. Við jarðskjálftann gekk panellinn út og suður á grindinni. Aðalveggurinn í stofunni leit út eins og harmónikkubelgur. Heimir sagði að strax hefði verið hafist handa við laga skemmdirnar á útihúsunum og íbúðarhúsinu. Þegar matsmenn komu loksins til Grenivíkur að skoða skemmdir sem þar höfðu orðið var búið að laga megnið af þeim.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. apríl.