Talsverðir biðlistar eru eftir aðild hjá mörgum golfklúbbanna á höfuðborgarsvæðinu. Á síðustu árum hefur mikil gróska verið í golfinu og iðkendum fjölgað hratt. Agnar Már Jónsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, segir brýnt að golfklúbbar hugi að frekari mannvirkjagerð í samvinnu við sveitarfélög, en lítið sé í pípunum hvað varði gerð golfvalla, sem sé bæði tímafrek og kostnaðarsöm uppbygging. Agnar áætlar að um þúsund manns séu nú á biðlistum eftir aðild að golfklúbbum á höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt grófum útreikningi áætlar hann að nýjan 18 holu golfvöll þurfi á sjö ára fresti til að anna eftirspurn.
Agnar segir að eftir árvissa fjölgun í nokkur ár hafi orðið sprenging í golfiðkun á síðasta ári eftir að faraldurinn skall á. Skýringarnar segir hann meðal annars öflugt unglingastarf og að margir hafi rúman tíma og vilji nýta hann til að byrja í golfi, sem bjóði upp á hreyfingu og holla útivist í góðum félagsskap. Aðrir taki þráðinn upp að nýju eftir að hafa lært íþróttina á yngri árum. Margir hafi áður spilað mikið erlendis, en meðan ekki séu tök á því spili fólk meira hér heima. Einnig megi nefna að golf sé á margan hátt sniðið að sóttvörnum þar sem aðgangi að útiveru sé stýrt og aldrei séu fleiri en fjórir í hópi og auðvelt sé að halda nauðsynlegri fjarlægð.
Agnar segir að nú sé staðan þannig að nokkur hundruð einstaklingar vilji byrja í golfi árlega umfram þá sem hætta. Hann áætlar að nú séu um eða yfir þúsund manns á biðlista á höfuðborgarsvæðinu. Agnar hefur starfað hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar (GKG) í níu ár og nú er í fyrsta skipti biðlisti, alls um 100 manns. Félagar eru um 2.200 og þar af eru 1.300 fullborgandi og eiga þá möguleika á að fá tíma á teig á „besta tíma“. Börn, unglingar og „heldri borgarar“ nýta þá tímann fyrir klukkan 16. Agnar segir að 1.300 fullborgandi sé hámarkið hjá GKG til að fólk geti komist að, en klúbburinn er með 27 holur, 18 holu völl og 9 holu völl.
Áformað er að á næstu árum verði byggt á landinu þar sem Setbergsvöllur er nú og hafa verið viðræður um nýtt land fyrir völl Golfklúbbs Setbergs. Nýr níu holu völlur er fyrirhugaður á Norðurnesi á Álftanesi og kæmi sá völlur í stað eldri vallar á Álftanesi, sem að mestu verður tekinn undir íbúðarhús og opin svæði þegar nýi golfvöllurinn verður kominn í gagnið. Í nokkur ár hefur verið unnið að undirbúningi að uppbyggingu útivistarsvæðis og stækkun golfvallar Oddfellowa á Urriðavelli við Heiðmörk um níu holur.
Jaðarklúbbar á stór-höfuðborgarsvæðinu á borð við Þorlákshöfn, Hveragerði, Leiruna, Sandgerði, Voga, Akranes og Borgarnes hafa fengið mikla umferð kylfinga af Reykjavíkursvæðinu á undanförnum árum.
Miðað við þessa óvísindalegu samantekt myndu níu holur bætast við á næstu árum á höfuðborgarsvæðinu, en hæpið er að það dugi miðað við þróunina að mati Agnars. Hann segir brýnt að sveitarfélög og forystumenn í golfhreyfingunni setjist niður og fari yfir þessa stöðu. Það sé verkefni sveitarfélaganna að útvega land, en klúbbanna að skila þangað félagsmönnum og ekki ætti að verða hörgull á þeim. Hefjast verði handa sem allra fyrst við að hefja byggingu fleiri golfvalla, annars stefni í óefni og nýliðun í íþróttinni verði þrautin þyngri.
Agnar segir að öflugt starf meðal barna og ungmenna í golfklúbbunum sé sannarlega fjárfesting til framtíðar.
„Ein ástæðan fyrir því að golfið hefur haldið áfram að vaxa á Íslandi þrátt fyrir skakkaföll víðsvegar um heiminn er sú staðreynd að íslenskir golfklúbbar hafa lagt mun meiri metnað en aðrar þjóðir í barna-, unglinga- og íþróttastarf,“ segir Agnar. „Við getum tekið sem dæmi að um 830 börn og unglingar nýta sér þjónustu Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG) á meðan sá golfklúbbur sem best sinnir þessum málum í Danmörku er með um 211 börn og unglinga á sínum snærum. Fyrir utan það að þarna eru íslenskir golfklúbbar að sinna forvarnarstarfi mun betur en erlendir golfklúbbar, þá leiðir þetta starf af sér að kylfingum mun fjölga verulega á næstu misserum.
Ef við höldum áfram að taka GKG sem dæmi, þá hefja 100 börn og unglingar golfiðkun á hverju ári. Við vitum að afföllin eru mikil þegar kemur að unglingsárunum eða um 95% og ástæðan er sú að einstaklingar hefja nám og stofna fjölskyldu. Sumum finnst mikið lagt í þetta starf án þess að það skili sér inn í starfið, en það er ekki rétt.
Golfið hefur það umfram flestar aðrar íþróttagreinar að hægt er að stunda það fram eftir öllum aldri. Þegar þeir einstaklingar sem voru í golfi á yngri árum hafa komið sér fyrir og um hægist hjá þeim eru miklar líkur á því að þeir hefji golfiðkun að nýju, þá sem hluta af tómstundagamni, hreyfingu og útiveru. Ætla má að um 70% þeirra sem hætta í golfi vilji með þeim hætti byrja aftur í íþróttinni.“
Agnar segir að þeir sem læri golf ungir búi að því alla ævi, líkt og þeir sem einu sinni læri að hjóla. Síðan komi margir á hverju ári og vilji byrja í golfi án þess að hafa haldið á kylfu áður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. apríl.