13 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og voru allir í sóttkví við greiningu. Ekkert smit greindist á landamærunum. Þetta kemur fram í tölum frá almannavörnum.
Samtals hafa því 120 smit greinst innanlands síðastliðna sjö daga og þar af greindust 25 utan sóttkvíar, eða 20%.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áður sagt að hann líti einkum til fjölda smita utan sóttkvíar við mat á útbreiðslu faraldursins og má því ætla að fréttirnar séu af hinu góða.
Vefsíðan covid.is er ekki uppfærð um helgar og ekki liggja því nánari upplýsingar fyrir.