Aðstoðarmaður umhverfisráðherra vill 2. sætið

Orri Páll Jóhannsson gefur kost á sér í 2. sætið.
Orri Páll Jóhannsson gefur kost á sér í 2. sætið. Ljósmynd/Orri Páll

Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra, gefur kost á sér í 2. sæti á lista Vinstri-grænna í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir þingkosningar í haust.

Sameiginlegt prófkjör flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur fer fram 16.-19. maí, en sex hafa gefið kost á sér í annað sætið öðrum hvorum megin.

Orri hefur verið varaþingmaður flokksins frá árinu 2016, en hann skipaði þriðja sætið á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu kosningum, þar sem flokkurinn fékk tvo menn kjörna.

Orri er búfræð­ingur að mennt, frá Land­bún­að­ar­há­skól­anum á Hvann­eyri, og auk þess með BSc-gráðu í vist­fræði og stjórnun nátt­úru­svæða frá Umhverf­is- og líf­vís­inda­há­skóla Nor­egs á Ási. Hann hefur áður starfað sem landvörður og var um tíma starfandi þjóðgarðsvörður á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs auk þess að vera verkefnastjóri grænfánaverkefnisins hjá Landvernd árin frá 2008 til 2012.

„Undir tryggri forystu Katrínar Jakobsdóttur á þessu kjörtímabili hefur okkur tekist að vinna að góðum málum að byggja betra, réttlátara og umhverfisvænna samfélag með sjálfbæra þróun að leiðarljósi og það á tímum heimsfaraldurs. Ég er stoltur af því að tilheyra þessari hreyfingu og vil gjarnan leggja mitt af mörkum á næsta kjörtímabili með því góða fólki sem starfar með VG,“ segir Orri í tilkynningu.

Framboðsfrestur fyrir forval Vinstri-grænna í Reykjavík rennur út klukkan 17 í dag. Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir sækjast einar eftir því að leiða Reykjavíkurlistana tvo, rétt eins og þær gerðu fyrir fjórum árum.

Baráttan um annað sætið er hins vegar harðari, en sex gefa þar kost á sér í sætin tvö. Auk Orra eru það Steinunn Þóra Árnadóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé, sitjandi þingmenn, sem og Elva Hrönn Hjartardóttir, sérfræðingur á þróunarsviði VR, Andrés Skúlason, fyrrverandi oddviti í Djúpavogshreppi, og Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert