Gefur engan afslátt við endursmíði baðhússins

Slökkviliðsmenn að störfum við að slökkva eldinn í baðhúsinu í …
Slökkviliðsmenn að störfum við að slökkva eldinn í baðhúsinu í gær. Ljósmynd/Austurfrétt/Gunnar

Framkvæmdastjóri Óbyggðaseturs Íslands ætlar að ekki að láta deigan síga og stefnir á að opna baðhúsið, sem brann í gær, aftur um miðjan júní. Stór hluti hússins er ónýtur en ekki er vitað um eldsupptök.

Byrjaður að leita á eyðibýlum 

Steingrímur Karlsson er framkvæmdastjóri Óbyggðaseturs Íslands, sem er innst inni í Fljótsdal við bæinn Egilsstaði.

Hann segir að baðhúsið, sem er um 40 til 50 fermetrar og hluti af Óbyggðasetrinu, hafi meðal annars verið byggt úr rekavið sem var sóttur út á Langanes, gömlum panel, gólfborðum, gömlum rúmbríkum, prjónavélaborði og snyrtiborði.

„Þetta er ekki eitthvað sem maður kaupir í Húsasmiðjunni eða Byko en þetta er bara verkefni sem þarf að leysa og græja,“ segir Steingrímur sem hefur strax hafið leit að efni til að byggja baðhúsið upp á nýjan leik, meðal annars á eyðibýlum.

„Maður finnur aðra gamla muni í staðinn. Ég ætla ekki að gefa afslátt af því og ætla að fara í þessi smáatriði og hafa þetta handgert,“ segir hann. „Það er út af þessari sérstöðu sem við höfum verið að fá umfjallanir í Vogue, Marie Claire og Cosmopolitan. Það er hluti af upplifuninni að vera ekki með hefðbundið spa,“ bætir hann við.  

Ljósmynd/Austurfrétt/Gunnar

Jusu vatni upp úr pottinum 

Steingrímur vonast til að opna hlöðnu laugina sem er við hliðina á baðhúsinu áður en húsið verður opnað aftur. Hann og nágrannar hans notuðu tímann í gær á meðan slökkviliðið var á leiðinni á vettvang frá Egilsstöðum til að ausa „nokkrum þúsundum lítra“ upp úr pottinum til að halda eldinum í skefjum. „Við björguðum einhverju en slökkviliðið stóð sig mjög vel eftir að það kom á staðinn,“ segir hann en aksturinn tók um 45 mínútur.

Steingrímur nefnir að gluggi hafi sprungið í baðhúsinu og kviknað hafi í sinu út frá því. Hann og nágrannarnir pössuðu upp á að sinueldurinn bærist ekki í nærliggjandi hús en vindurinn stóð upp á þau.

Stór hluti baðhússins er ónýtur.
Stór hluti baðhússins er ónýtur. Ljósmynd/Austurfrétt/Gunnar

Sá reykinn er hann kom keyrandi

Sjálfur gisti hann í Laugarfellsskála um nóttina ásamt gönguskíðahópum sem voru þar á vegum Óbyggðasetursins. Þegar hann var að koma þaðan keyrandi inn í dalinn sá hann reykinn og var vitaskuld snöggur á staðinn.

Sex ár eru liðin síðan Óbyggðasetrið var opnað. Tvö ár eru aftur á móti liðin síðan Steingrímur lauk við baðhúsið. Aðspurður segir hann Íslendingum sem sækja staðinn heim hafa fjölgað undanfarið. Í vetur hafi í fyrsta sinn verið boðið upp á gönguskíðaferðir og þær hafi fallið vel í kramið.

Steingrímur Karlsson framkvæmdastjóri Óbyggðasetursins.
Steingrímur Karlsson framkvæmdastjóri Óbyggðasetursins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert