Spáð er suðlægri átt, víða 3-8 metrum á sekúndu og rigningu með köflum í dag. Hiti verður á bilinu 1 til 10 stig, hlýjast syðst. Vindur gengur í norðan 5-10 metra á sekúndu síðdegis og styttir upp sunnan til en skúrir eða slydduél norðan- og austanlands í kvöld.
Grunn lægð er nú á leið austur yfir landið en henni fylgja úrkomuskil með rigningu, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings. Eftir að skilin eru farin yfir landið styttir upp og léttir sunnan til.
Á morgun er spáð norðlægri átt, víða 3-10 metrum á sekúndu en 10-15 á Austfjörðum fram undir kvöld. Lítils háttar él á Norður- og Austurlandi fram eftir degi en annars bjart með köflum. Þykknar upp með stöku skúr syðst síðdegis. Hiti 5 til 12 stig en 0 til 4 stig norðan- og austanlands.