Jóhann Hjartarson er efstur með fullt hús að lokinni þriðju umferð Íslandsmótsins í skák sem fram fer í Kópavogi. Jóhann sigraði Alexander Oliver Mai í gær.
Annar er Bragi Þorfinnsson með tvo og hálfan vinning en hann vann sannfærandi sigur á Sigurbirni Björnssyni. Hjörvar Steinn Grétarsson og Vignir Vatnar Stefánsson eru næstir í 3.-4. sæti, hvor um sig með tvo vinninga.
Hjörvar hafði betur gegn Birni Þorfinnssyni, en Vignir lagði Helga Áss Grétarsson stórmeistara í lengstu skák gærdagsins. Helgi er sem stendur í 5.-7. sæti ásamt Hannesi Hlífari Stefánssyni, þrettánföldum Íslandsmeistara, og Guðmundi Kjartanssyni, ríkjandi meistara.
Fjórða umferð mótsins hefst klukkan 15 í dag og mætir Jóhann þá Birni Þorfinnssyni, Bragi mætir Hannesi Hlífari og Guðmundur og Hjörvar eigast við.