Karítas Ríkharðsdóttir
Eldtunga sem tók að renna í Meradali í gær kom björgunarsveitarfólki sem þar var á ferð í opna skjöldu. Frá þessu er greint á facebooksíðu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar.
Þar segir einnig að björgunarsveitarfólki hafi orðið ljóst að hraunið væri á mikilli ferð niður gilið. Reiknaðist því til að hraunið rynni um þrjá til fjóra metra á mínútu.
„Var því ákveðið í snarheitum að bruna upp á hrygginn við gosstöðvarnar, þar sem veðurstöðin er, til þess að smala niður fólki sem þar var svo það yrði ekki innilokað á hryggnum,“ segir þar.
Vel gekk að finna fólk á svæðinu, koma því í burtu og tryggja svæðið.
Rennslið í Meradali hefur ekki áhrif á gönguleiðirnar sem hafa verið stikaðar að gossvæðinu.
Eftir hádegið í dag var hópur frá okkur á ferðinni inn í Merardal þegar þeir ráku upp stór augu en þar sáu þau að hraun...
Posted by Björgunarsveitin Þorbjörn on Saturday, 24 April 2021
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segir að fjölmennt sé við gosstöðvarnar í dag. Blíða er á suðvesturhluta landsins og tilvalið veður til útivistar. Ekki hefur komið til útkalls viðbragðsaðila í dag.
Skipta þurfti frá stikaðri gönguleið A yfir í B vegna gasmengunar fyrr í dag.