Mergð manngerðra hella í Odda

Oddarannsóknin. Uppgraftarsvæði framan við manngerðan helli í Odda. Manneskja sem …
Oddarannsóknin. Uppgraftarsvæði framan við manngerðan helli í Odda. Manneskja sem örlar fyrir efst á myndinni til vinstri gefur hugmynd um hve stórt mannvirkið hefur verið. Manngerðu hellarnir voru sumir tengdir saman. Ljósmynd/Kristborg Þórsdóttir

„Uppgröfturinn í manngerðum hellum í Odda á Rangárvöllum er einstakur. Það hefur ekki áður verið grafið í hellum hér á landi sem hafa verið óraskaðir jafn lengi og þessir. Hellir sem við erum að grafa upp núna hefur verið lokaður í minnst 800 ár. Það er alveg einstakt að komast í gólflög í mannvirki sem hefur verið óraskað jafn lengi og þetta,“ segir Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands og stjórnandi fornleifahluta Oddarannsóknarinnar. Hún er einnig ritstjóri nýrrar skýrslu um það sem ávannst í fornleifarannsókn í Odda 2020.

Fjöldi áður óþekktra minja var þá skráður. Þar ber hæst fjölda manngerðra hella og fornar minjar við Kamphól þar sem Þverá og Ytri-Rangá sameinast. Líklegt þykir að þar séu minjar um seljabúskap Oddastaðar frá fyrstu tíð. Þær þykja einstaklega mikilvægar fyrir helsta markmið fornleifarannsóknanna sem er að varpa ljósi á efnahagslegar undirstöður miðstöðvarinnar í Odda.

Þverfagleg Oddarannsókn

Oddafélagið fékk Kristborgu og Fornleifastofnun í lið með sér 2017 til að gera þriggja ára áætlun fyrir fornleifarannsóknir í Odda. Gerður var prufuskurður 2018 og þá fannst uppistandandi manngerður hellir. Það þótti merkilegur fundur og mikilvægt var að halda áfram rannsóknum á honum, að sögn Kristborgar.

Gríðarmikill sandur var ofan á torfbyggingunni framan við þennan helli. …
Gríðarmikill sandur var ofan á torfbyggingunni framan við þennan helli. Lengst til hægri sést glitta í hellismunnann. Ljósmynd/Kristborg Þórsdóttir

Þverfagleg Oddarannsókn á vegum Oddafélagsins hlaut vorið 2020 styrk úr sjóðnum Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM). Markmið Oddarannsóknarinnar er að varpa sem skýrustu ljósi á ritmenningu í Odda á miðöldum með áherslu á tímabilið 1100-1300. Rannsóknin skiptist í þrjá verkþætti: fornleifarannsókn, rannsókn á umhverfi og mannvist og rannsókn á miðstöðinni Odda. Fornleifarannsóknin hófst síðasta sumar og var beitt fjölbreyttum rannsóknaraðferðum við hana. Allar sýnilegar minjar í heimatúni Oddahverfis og út við Kamphól voru mældar upp. Einnig var fjöldi minja skráður. Styrkur RÍM-sjóðsins gerði þetta kleift.

Mikil valdamiðstöð í Odda

„Það var ekki hvaða staður sem var sem gat staðið undir gerð bókmenntaverka á miðöldum eins og talið er að Oddi hafi gert,“ segir Kristborg. „Þótt við séum ekki að leita að beinum vísbendingum um handritagerð eða ritun þá snýst rannsóknin m.a. um að skoða umhverfið og undirstöðurnar að þeirri valdamiðstöð sem þarna var.“

Uppgröftur fór fram á tveimur stöðum í Hellirsdölum sem eru í túni Odda. Á öðrum staðnum var grafin upp bygging framan við manngerðan helli frá miðri 10. öld. Hún kom í ljós við forrannsóknina 2018. Á hinum staðnum var grafinn könnunarskurður við munna fallins manngerðs hellis. Þar komu í ljós allfornar byggingarleifar sem eru yngri en hinn hellirinn og byggingin á hinu uppgraftarsvæðinu.

Líklega samtengt hellakerfi

Vestan við kirkjuna í Odda eru ummerki um fjölda hella. Þar hefur líklega verið samtengt hellakerfi. „Það getur verið spurning hvar einn hellir endar og annar byrjar. Síðasta sumar taldi ég átján nýfundna hella en það er ljóst að þetta er mjög mikið af hellum og þeir eru úti um allt, einkum í túninu,“ segir Kristborg.

Kristborg Þórsdóttir.
Kristborg Þórsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ljóst er að hellarnir voru grafnir út skömmu eftir að menn settust fyrst að í Odda. Notkun þeirra virðist líka hætt snemma vegna þess að sandsteinninn, sem þeir voru grafnir í, er gljúpur og því entust hellarnir illa.

Kristborg sagði ekki vitað með vissu til hvers manngerðu hellarnir voru notaðir í öndverðu. Meira er vitað um notkun þeirra á seinni öldum. Ætla má að þeir hafi mikið verið notaðir sem gripahús og heyhlöður, skemmur og búr en einnig eru til dæmi um mannabústaði. Hellarnir hafa tæplega verið vistlegir íverustaðir vegna þess hvað þeir voru dimmir, rakir og kaldir. Búrhellar eru þekktir á Ægissíðu við Hellu og eins á Gaddstöðum sem eru ekki langt frá Odda.

Kristborg segir að í fyrstu hafi sér þótt sérkennilegt að hæsti hóllinn, Gammabrekka, sem er rétt við bæjarstæðið, skyldi ekki hafa verið notaður til hellagerðar í ljósi mikillar hellagerðarmenningar í Odda. „Þegar ég fór að skoða þetta betur þá fann ég alla vega tvo hella í hólnum. Við tókum borkjarna við opið í þann sem er næst bæjarstæðinu og þar virðast vera mjög fornar mannvistarleifar. Líklega frá miðri 10. öld eins og í hellinum sem við erum að grafa upp núna,“ segir Kristborg en eftir er að staðfesta þessar aldursgreiningar betur með nánari rannsóknum.

Hellirinn sem nú er unnið að uppgreftri á er ekki mjög stór, það sem sést er um 10 x 2,5 metrar að grunnfleti en mikið hefur hrunið innst í hellinum. Þessi hellir hefur tengst öðrum risastórum helli sem er fallinn saman. Hann gæti mögulega verið Nautahellir sem nefndur er í Jarteinabók Þorláks helga biskups. Suðaustan við hann er annar gríðarstór samfallinn hellir. Grafinn var könnunarskurður í munna hans. Þessir hellar mynda stóra samstæðu manngerðra hella. Kristborg segir að nautgripahald hafi verið algengara á öldum áður en síðar varð. Menn notuðu uxa sem dráttardýr, auk þess sem kýr voru mjólkaðar og nautgripum slátrað til manneldis. Þá voru kálfskinn notuð í skinnhandrit og nautshúðir til margra nota.

Þykk jarðvegslög hylja

Búið er að grafa upp byggingu sem var fyrir framan hellinn sem nú er unnið í. Uppgröftur inni í hellinum verður flókið úrlausnarefni, að sögn Kristborgar. Styrkja þarf hellisþakið til að tryggja öryggi þeirra sem munu vinna þar inni við uppgröftinn.

Þykkur jarðvegur hefur safnast ofan á minjarnar enda hefur verið mikið áfok á þessum slóðum. Það tefur fyrir. Skurðgrafa var notuð í fyrrasumar til að afhjúpa tóftina framan við stóra hellinn. „Við erum bara komin niður á mögulega fyrsta yfirborð í gólfinu þar. Markmiðið í sumar er að klára að grafa inni í þessari tóft og rannsaka gólfin í henni. Mögulega finnum við einhver ummerki um burðarvirki eða innréttingar. Ætlunin er að komast að því til hvers þessi tóft var notuð. Ýmislegt bendir til þess að þetta hafi verið hlaða en hvort það var alltaf þannig er ekki vitað. Vonandi komumst við líka eitthvað inn í hellinn, þótt ég sé ekki mjög bjartsýn á það því tíminn leyfir það ekki,“ segir Kristborg.

Í sumar á einnig að grafa könnunarskurð í forna tóft við Kamphól og kanna hvort það er seltóft og hve gömul hún er. Þar rétt hjá er lokaður manngerður hellir og langar Kristborgu að kanna hvað mannvirkið þar fyrir framan er gamalt og hvort það geti verið samtíða meintri seltóft.

Sérfræðingar frá Bretlandseyjum hafa gefið vilyrði fyrir því að koma og gera segul- og viðnámsmælingar í Odda í sumar. Einnig eru væntanlegir sérfræðingar frá Bandaríkjunum sem vilja gera meiri jarðsjármælingar á svæðinu og gera borkjarnarannsóknir á stórum hluta túnsins í Odda til að kortleggja betur mannvistarleifar þar.

„Það er mikið háð Covid-ástandinu hvort þessir sérfræðingar koma,“ segir Kristborg en sérfræðingarnir eru háskólafólk sem er styrkt af sínum stofnunum til að stunda rannsóknir. „Það er mikill akkur fyrir Oddarannsóknina að fá þau vegna sérfræðiþekkingar þeirra.“

Margra ára verkefni

Oddarannsóknin er margra ára verkefni ef á að fullkanna svæðið. „Það er ótrúlega margt þarna í Odda sem hægt er að skoða, en við höfum reynt að fara ekki fram úr okkur til að geta klárað það sem við byrjum á,“ segir Kristborg ennfremur.

Fornleifaskóli í Odda. Grunnskólanemendur fá þar að kynnast fornleifafræðinni og …
Fornleifaskóli í Odda. Grunnskólanemendur fá þar að kynnast fornleifafræðinni og æfa sig í sérstökum reit þar sem finna má ýmsa hluti. Myndin var tekin 2019. Ljósmynd/Kristborg Þórsdóttir

Í þessum verkhluta rannsóknarinnar var byrjað að kortleggja allar ferðaleiðir í landi Odda og breytingar sem á þeim urðu. Leiðirnar eru fjölmargar og frá mismunandi tímum. Þá hafa orðið miklar breytingar á umhverfinu, m.a. vegna uppblásturs og breytinga á farvegum Ytri-Rangár en aðallega Þverár. Umhverfisrannsóknirnar og fornleifarannsóknirnar þurfa að spila saman.

Gert er ráð fyrir að fornleifarannsóknir hefjist aftur í síðari hluta júlí og standi fram í ágúst.

Krakkar fá að kynnast fornleifafræðinni

Fornleifaskóli barnanna verður aftur haldinn í Odda í fyrstu viku maí. Verkefnið hófst haustið 2018 þegar 7. bekk í grunnskólanum á Hellu var boðið að koma í tilraunaskyni. Haldinn var inngangsfyrirlestur fyrir nemendur í skólanum. Svo komu þau í Odda og voru þar dagpart.

Fornleifaskólinn var haldinn aftur vorið 2019 og þá var hver hópur heilan kennsludag í Odda. Þá komu 7. bekkingar í Hvolsskóla og Laugalandsskóla í Odda. Lagt er upp með að 9-12 nemendur komi í senn í Odda. Hverjum hópi er skipt í þrjá 3-4 nemenda hópa og fá þeir kennslu í aðferðum fornleifaskráningar, í fornleifauppgreftri og eins er þeim kennt að ganga frá gripum og greina þá.

Fyrir kennslu í uppgraftaraðferðum er útbúinn lítill reitur í rótuðum jarðvegi og þar faldir ýmsir hlutir. Nemendurnir fá svo hver sinn reit og þurfa að teikna hann upp í hnitakerfi. Svo fá þau að grafa hvert í sínum reit og „finna“ ýmsa muni sem síðan þarf að skrá á réttan hátt.

Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur sagði að rætt hefði verið um að gefa bæði yngri og eldri nemendum kost á kennslu í aðferðum fornleifafræðinnar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka