Ósammála um ágæti áherslu stjórnvalda

Þingmennirnir Vilhjálmur Árnason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Halldóra Mogensen voru …
Þingmennirnir Vilhjálmur Árnason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Halldóra Mogensen voru meðal gesta Silfursins í morgun. Skjáskot/Rúv

„Báknið“ var á vörum fyrstu gesta Silfursins á RÚV þennan sunnudaginn, þeirra Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata, Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.

Sigmundur Davíð benti sérstaklega á hve íþyngjandi „báknið“ væri orðið fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu og sagði að slík fyrirtæki hefðu nú þegar verið í vanda stödd áður en heimsfaraldur kórónuveiru skall á. Hann kallaði því eftir aukinni umræðu stjórnmálamanna um þann vanda, sem hann segir „eitt af stóru málunum sem beðið hafa á hakanum“, í stað þess að öll athygli stjórnvalda beinist að kórónuveirunni. 

Segir stuðning við fyrirtæki vera stuðning við einstaklinga

Halldóra Mogensen gagnrýndi einnig stjórnvöld, en þó fyrir að hafa beint fjárhagslegum stuðningi sínum aðallega að fyrirtækjum en ekki einstaklingum. Einstaklingum væru settar íþyngjandi og oft og tíðum óskiljanlegar skorður, og nefndi hún sérstaklega atvinnuleysisbótarétt stúdenta í því sambandi, á meðan fyrirtæki gætu þegið styrki úr vösum skattgreiðenda nánast skilyrðislaust. 

Þessu mótmælti Vilhjálmur Árnason og sagði að auðvitað yrði að styðja við bakið á fyrirtækjunum í landinu, þau samanstæðu einmitt af fólkinu sem Halldóra vildi að stjórnvöld beindu sjónum sínum að.

Verðmætasköpunin fer fram inni í fyrirtækjunum, sagði Vilhjálmur, og þaðan skilaði sér hún til fólksins. Eins sagði Vilhjálmur að skammtímaatvinnuleysið væri mest í ferðaþjónustubransanum og að það væri ekki síst bundið við suðvesturhornið, þar sem hann býr. Störf í ferðaþjónustu verða ein þau fyrstu til þess að koma aftur, að hans sögn, eftir að faraldrinum lyki, þess vegna væri brýnt að styðja við þau fyrirtæki svo bransinn allur væri sem best undir það búinn þegar ferðavilji fólks eykst á ný. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka