Helgi Bjarnason
Gefnir verða um 25 þúsund skammtar af bóluefni vegna kórónuveirunnar í þessari viku, ef áætlanir ganga eftir. Verður þetta þá stærsta vikan í bólusetningum til þessa.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur boðað sex þúsund manns í Laugardalshöllina á morgun, þriðjudag, til að fá bólusetningu og níu þúsund manns á miðvikudag.
Fyrri daginn er gefið bóluefnið frá Pfizer, í flestum tilvikum fyrri sprauta hjá fólki á öllum aldri með undirliggjandi langvinna sjúkdóma.
Bóluefnið frá AstraZeneca verður notað á miðvikudaginn. Það verður í öllum tilvikum fyrri bólusetning 60 ára og eldri með undirliggjandi sjúkdóma en í hópnum er einnig fólk á þeim aldri sem ekki er með slíka sjúkrasögu.
Einn þeirra sem verður bólusettur með AstraZeneca í vikunni er Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Þetta kom fram í samtali við hann í morgunþætti Bylgjunnar, Býtið, í morgun.
Komið hefur fram að í vikunni verði einnig í boði bóluefni frá Janssen þar sem ein bólusetning veitir fulla virkni. Óskar S. Reykdalsson, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að fólk sé boðað í bólusetningu samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni. Reiknar hann með að nýjar upplýsingar berist í dag, meðal annars um notkun Janssen-bóluefnisins, og þá sé hægt að bæta stórum bólusetningardegi við á fimmtudag. Hvað það verða margir skammtar og hvaða hópar verða boðaðir liggur ekki fyrir. Segir Óskar að ef meira bóluefni berist verði hægt að ljúka bólusetningu allra í aldurshópnum 60 til 69 ára í vikunni.
Næsta vika verður enn stærri gangi áform stjórnvalda eftir.