Á þriðja þúsund við gosstöðvar í gær

Fjölmenni að skoða hraunflæði í Geldingadölum.
Fjölmenni að skoða hraunflæði í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á milli 2.200 og 2.300 manns gengu fram hjá teljurum Ferðamálastofu við gönguleiðir að gosstöðvunum í Geldingadölum í gær að sögn Gunn­ars Schram, yf­ir­lög­regluþjóns hjá lög­regl­unni á Suður­nesj­um. 

Vel viðraði í gær og nýttu margir tækifærið til að ganga að gosinu seinni hluta dags og vera fram á kvöld. Vinsælt er að berja gosið augum í ljósaskiptum og þegar dimma tekur. 

Gunnar segir gærdaginn hafa verið fjölmennastan í langan tíma, líklega í yfir tvær vikur. Hann gerir einnig ráð fyrir mikilli umferð í dag og segir viðbragðsaðila viðbúna því. 

Smávægileg útköll viðbragðsaðila voru í gær „í samræmi við fjölda fólks,“ að sögn Gunnars. Ekki var um nein alvarleg slys að ræða. 

Bannað að leggja við Suðurstrandarveg

Lögreglan á Suðurnesjum bendir á að bannað sé að leggja á og við Suðurstrandarveg. Bílum skal lagt á skipulögðum bílastæðum á grasfleti við veginn, aðkoma er að stæðunum bæði úr austri og vestri. 

Veðurspá fyrir gosstöðvarnar og líkleg gasdreifing í dag, mánudag, og á þriðjudag er: 

„Fremur hæg norðaustlæg eða breytileg átt og bjart að mestu í dag, hiti 4 til 10 stig. Gasmengun er ólíkleg til að berast í miklu magni yfir byggð, en gæti safnast fyrir í lægðum á gosstöðvunum.

Snýst í sunnan 3-8 m/s í kvöld sem gæti blásið gasmengun yfir Vatnsleysuströnd, og seint í kvöld og nótt eru líkur á þoku.

Suðvestan 3-8 og skýjað í fyrramálið og líkur á smáskúrum. Gasmengun berst þá í átt að höfuðborgarsvæðinu, en eftir hádegi á morgun snýst í norðvestan 5-10 og mengunin ætti að berast á haf út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert