Allir símar á hliðinni og netspjallið logar

„Um land allt eru allir símar á hliðinni og netspjallið …
„Um land allt eru allir símar á hliðinni og netspjallið logandi. Við biðjum fólk um að sýna biðlund, treysta sóttvarnalækni og treysta því að verið sé að gera þetta eins vel og mögulegt er,“ segir Ragnheiður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víða um land stendur heilsugæslan nú í ströngu við að svara fyrirspurnum fólks um bólusetningu gegn Covid-19, sérstaklega hvað varðar bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuborgarsvæðisins ítrekar að bóluefnið sé öruggt og biðlar til fólks að treysta sóttvarnalækni og heilbrigðisyfirvöldum til þess að sinna ferlinu eins vel og mögulegt er.

Stórir dagar og vikur eru fram undan í bólusetningu en bólusetja á um 26.000 manns í þessari viku. Útlit er fyrir að enn fleiri verði bólusettir á komandi vikum og segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að bæta hafi þurft við nokkuð mörgum starfsmönnum að undanförnu svo mögulegt sé að takast á við verkefnið.

„Það virðist vera að bætast í hjá öllum bóluefnaframleiðendum svo við eigum fullt í fangi með að láta þetta allt saman ganga upp fyrir hvern dag. Það fer bráðum að líða að því að dagarnir í vikunni verði ekki nógu margir. Þá verðum við bara að opna fyrir helgar eða eitthvað í þá áttina,“ segir Ragnheiður í samtali við mbl.is.

„Við erum búin að bæta við töluvert mörgu starfsfólki vegna þess að við getum ekki endalaust tekið út af heilsugæslustöðvunum. Svo sinnum við náttúrulega sýnatökunum líka svo það er í mörg horn að líta.“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ljósmynd/Lögreglan

Óhjákvæmilegt að faraldurinn komi niður á eðlilegri starfsemi

Spurð hvort álagið í bólusetningum og sýnatökum hafi komið niður á starfsemi heilsugæslunnar segir Ragnheiður:

„Við höfum reynt eins og við getum að láta þetta ekki koma niður á starfseminni en auðvitað getum við ekki farið í gegnum heimsfaraldur án þess að það komi niður á eðlilegri starfsemi heilsugæslustöðva.“

Hjúkrunarfræðingar af heilsugæslunni koma að bólusetningu.

„Það er bæði heilsuverndin, ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæslan og vaktþjónustan sem verða svolítið fyrir barðinu á þessu,“ segir Ragnheiður.

Biður fólk um að sýna biðlund

Stefnt er að því að allir þeir sem eru 60 ára og eldri hafi fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefninu fyrir vikulok. Bóluefni Janssen verður ekki tekið í notkun á höfuðborgarsvæðinu í vikunni en það verður notað á landsbyggðinni. Ástæðan er sú að fáir skammtar af efninu eru komnir til landsins og er stærðarhagkvæmni fólgin í því að nota frekar marga bóluefnaskammta frá sömu framleiðendum á höfuðborgarsvæðinu.

Ragnheiður segir nú mikið álag á heilsugæslunni.

„Um land allt eru allir símar á hliðinni og netspjallið logandi. Við biðjum fólk um að sýna biðlund, treysta sóttvarnalækni og treysta því að verið sé að gera þetta eins vel og mögulegt er,“ segir Ragnheiður.

Misskilningur orsakar aukið álag

Þetta álag er sérstaklega tilkomið vegna þess að ákveðins misskilnings gætir á meðal eldra fólks með undirliggjandi sjúkdóma sem boðin er bólusetning með bóluefni AstraZeneca. Einhverjir í þeim hópum telja að þeir eigi ekki að fá bóluefni AstraZeneca en Ragnheiður ítrekar að eldra fólk fái bóluefni AstraZeneca nema í tilvikum þeirra sem eiga fyrri sögu um blóðtappa í bláæðum án þekktra áhættuþátta (sjálfsprottinna bláæðasega) eða eru með undirliggjandi mikið aukna hættu á bláæðasegum. Fjallað er um þetta á vefsíðu embættis landlæknis

Ragnheiður ítrekar að heilsugæslan sé meðvituð um það hverjir séu í fyrrnefndum hópum og þeir séu sérstaklega merktir í kerfinu og fái því annað bóluefni.

„Ofboðslega sjaldgæfar aukaverkanir“

Ragnheiður segir að svo sé ákveðinn hópur sem vilji ekki þiggja bólusetningu með bóluefni AstraZeneca. Hún segir að það sé einfaldlega þeirra val en sem stendur býðst þessu fólki ekki annað bóluefni.

„Hugsanlega verða opnir dagar fyrir þennan hóp þegar nær líður sumri. Það er ekki komið að því enn þá,“ segir Ragnheiður. Fólk sem vill ekki þiggja bólusetningu með efni AstraZeneca þarf ekki að láta sérstaklega vita af því.  

Að lokum ítrekar Ragnheiður að alvarlegar aukaverkanir af völdum bólusetningar með bóluefni AstraZeneca séu afar fátíðar.

„Þetta eru svo ofboðslega sjaldgæfar aukaverkanir. Aukaverkanir af mörgum lyfjum og inflúensubólusetningu eru ekkert ósvipaðar. Þetta virðist vera búið að magnast upp í fólki, væntanlega líka vegna fjölmiðlaumræðu, og orsaka þessa hræðslu hjá fólki sem er svo mikill óþarfi vegna þess að í lang, lang langflestum tilvikum er þetta mjög gott bóluefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert