Auk þess að vera ljóðskáld er Kristín Svava Tómasdóttir menntaður sagnfræðingur. Hún fékk Fjöruverðlaunin fyrir stuttu fyrir ljóðabókina Hetjusögur, sem hún vann upp úr ritröðinni Íslenskar ljósmæður I-III sem Sveinn Víkingur tók saman, og fyrir þátt sinn í fræðiritinu Konur sem kjósa: Aldarsaga sem hlaut verðlaunin sem fræðibók ársins.
Sem stendur er Kristín að skrifa sagnfræðirit um farsóttarhúsið við Þingholtsstræti sem hefur gengið undir mörgum nöfnum frá því það var reist sem fyrsta almenna sjúkrahúsið í Reykjavík 1884 og gegnt ýmsum hlutverkum síðan. Hún segist hafa dottið niður á verkefnið nánast fyrir tilviljun.
„Ég skrifaði ritgerð á námskeiði hjá Ragnheiði Kristinsdóttur sem hét Fátækt fólk og fjallaði um fátækt og stéttaskiptingu í Reykjavík við upphaf 20. aldar og vann með alveg magnaðar heimildir á Borgarskjalasafni Reykjavíkur sem heita þurfamannaævir og eru heimildir um þurfamenn Reykjavíkurbæjar. Þetta eru möppur merktar einstaklingum sem þurftu að þiggja styrk frá bænum, stórmerkilegt efni.
Þar fór ég að skoða líf ungrar konu sem hafði verið þurfamaður Reykjavíkur 1924-25 og hún hafði sem sagt lagst inn á Farsótt og ég hafði aldrei tekið almennilega eftir þessu húsi þannig, vissi ekkert um þessa farsóttarspítalasögu. Svo þegar ég fór að lesa þetta fannst mér svo magnað hvað þetta eina hús hafði átt margslungna sögu. Hugsaði svo: Hví skrifa ég ekki bara þessa sögu?“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.