Vegna bilunar á vef Veðurstofu Íslands virtist í dag sem einstaklega lítil skjálftavirkni væri á landinu öllu. Samkvæmt sérfræðingi á vakt hjá veðurstofunni varði bilunin lungann úr deginum en vefurinn hefur nú verið lagaður.
„Mælarnir eru alls ekki bilaðir heldur virðast mælingarnar ekki hafa skilað sér inn í kerfið,“ segir sérfræðingur veðurstofunnar við mbl.is.
Vakin hafði verið athygli á óvenjulega lítilli skjálftavirkni í facebook-hópnum Jarðsöguvinir – Friends of Historical Geology, þar sem fólk velti því fyrir sér í athugasemdakerfum hvort um væri að ræða logn á undan skjálftastormi.
„Þetta veit ekki á gott,“ sagði einn og „Lognið á undan storminum?“ spurði annar.
Í annarri færslu á hópnum má sjá mynd af vef Veðurstofunnar og má ekki af henni annað dæma en að enginn skjálfti hafi orðið á öllu landinu á milli klukkan sjö í morgun og til hádegis.
Þar spáðu margir, sennilega í gríni þó, að verið væri að „hlaða í“ skjálfta af stærðinni sjö. Flestir virtust þó átta sig á að ekki væri allt með felldu.