Fjöldi bólusettra nálgast 100.000

Frá bólusetningu í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

80.721 einstaklingur hefur fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19. 25.000 skammtar verða gefnir í vikunni og má því gera ráð fyrir því að tala bólusettra nái, eða færist í það minnsta verulega nær, hinni fögru tölu 100.000 í vikunni. 

Tæpur helmingur þeirra sem hafa fengið bóluefnaskammt eru fullbólusettir, eða 32.609 einstaklingar. Nánast allir sem eru 80 ára og eldri hafa fengið fulla bólusetningu gegn Covid-19, eða um 96%. Þá er bólusetning hafin eða henni lokið hjá ríflega 90% fólks í aldurshópnum 70 til 79 ára.

Tæplega 30.000 hafa fengið Pfizer

113.330 skammtar af bóluefni hafa alls verið gefnir hér á landi og verða þeir um 138.000 í lok viku ef áætlanir standast. Hvað varðar þrjú bóluefni af fjórum sem hafa verið samþykkt hérlendis þarf fólk tvo skammta, með nokkurra vikna eða mánaða millibili, til þess að öðlast fulla bólusetningu. 

Langflestir skammtar hafa verið gefnir af bóluefni Pfizer en 28.750 fullbólusettra hafa fengið bóluefni Pfizer og er bólusetning hafin hjá 19.765 manns með efninu. Enginn hefur lokið bólusetningu með bóluefni AstraZeneca, en þrír mánuðir líða á milli bólusetninga með efninu. 23.948 manns hafa fengið fyrsta skammtinn af efninu. Hvað Moderna varðar hafa um 4.000 manns fengið einn skammt af efninu og svipað margir tvo. 

Alls 773 tilkynningar um grun um aukaverkanir

Flestar tilkynningar um grun um aukaverkanir hafa borist Lyfjastofnun vegna bóluefnis AstraZeneca, eða 321 tilkynning. Sextán þeirra eru alvarlegar, 29 alvarlegar tilkynningar hafa borist vegna gruns um aukaverkanir vegna bóluefnis Pfizer en 250 ekki alvarlegar. Hvað bóluefni Moderna varðar hafa 173 tilkynningar borist alls, þar af fimm alvarlegar.

Bólusetja á um 280.000 manns hérlendis til að byrja með. Þá er útlit fyrir að fleiri verði bólusettir síðar ef bólusetningar barna verða heimilaðar. Nú standa yfir rannsóknir á virkni og öryggi bólusetningar gegn Covid-19 fyrir börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert