Þrír skákmenn eru efstir og jafnir með þrjá og hálfan vinning á Íslandsmótinu í skák en fimmtu umferð lauk í kvöld. Það eru stórmeistararnir Jóhann Hjartarson og Guðmundur Kjartansson ásamt yngsta keppandanum Vigni Vatnari Stefánssyni.
Mikil spenna er á mótinu sem er í gangi í húsnæði Siglingafélagsins Ýmis í Kópavogi. Aðeins einum vinningi munar á fyrsta og sjöunda sæti að loknum fimm umferðum.
Guðmundur vann Björn Þorfinnsson og hefur heldur betur gefið í eftir tap í fyrstu umferð en Guðmundur hefur titil að verja. Þá gerðu Jóhann og Vignir báðir jafntefli, Jóhann við Helga Áss Grétarsson en Vignir við Hannes Hlífar Stefánsson.
Hjörvar Steinn Grétarsson og Bragi Þorfinnsson eru í 4.-5. sæti en Hjörvar vann innbyrðis skák þeirra félaga. Helgi Áss og Hannes eru í 6.-7. sæti með tvo og hálfan vinning.
Sjötta umferð fer fram á morgun og mætast þar meðal annars Jóhann og Guðmundur og Vignir Vatnar og Hjörvar. Sýnt verður beint af mótinu á skak.is.