„Konur eiga betra skilið en þetta“

Rætt var um leghálsskimanir á Alþingi í dag.
Rætt var um leghálsskimanir á Alþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um stöðu skýrslu um breytingar á skipulagi og framkvæmd leghálsskimunar í sérstökum umræðum um málefnið á Alþingi í dag.

„Þann 2. mars síðastliðinn óskaði ég hér, ásamt tuttugu og fimm öðrum þingmönnum, eftir að hæstvirtum heilbrigðisráðherra yrði falið að vinna skýrslu um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Það gerði ég í kjölfar þungrar gagnrýni frá konum og frá læknum og heilbrigðisstarfsfólki. Afleiðingin af þessum breytingum er óöryggi til kerfisins. Það er óboðleg staða,“ sagði Þorbjörg í ræðu sinni í dag. 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Ljósmynd/Aðsend

Hún rakti að heilbrigðisráðherra hafi tíu vikur til að skila slíkri skýrslu til þingsins samkvæmt þingsköpum. „Á morgun verða átta vikur liðnar. En enn hefur ekkert heyrst af vinnu. Óskað hefur verið eftir upplýsingum hjá forseta þingsins, þann 14. apríl, en svör um stöðu mála hafa enn ekki borist.

Ástæða þess að ég nefni tímamörkin hér er að í skýrslubeiðninni er farið fram á, með leyfi forseta, „að skýrsla um ofangreinda þætti verði unnin af óháðum aðila og að samráð verði haft við þingflokka um óháðan aðila sem fenginn verður til starfsins“.

Þegar tvær vikur eru þar til ráðherra á að flytja þinginu skýrsluna hefur ekkert heyrst frá heilbrigðisráðherra um hvaða aðili verði fenginn til þess. Þetta rímar því miður við undirbúning málsins alls af hálfu stjórnvalda. Það vantar allt samtal, samtal við konur sem eiga allt þessari þjónustu að þakka og samtal við kerfið sjálf,“ sagði Þorbjörg.

Hún sagði enn fremur að það ylli sér vonbrigðum að sjá engin merki þess að vanda eigi til þessarar vinnu, að leggja fram faglega unna úttekt á þessu máli. „Konur eiga betra skilið en þetta. Ég spyr hæstvirtan ráðherra, er ætlunin að vinna þessa skýrslu í samræmi við vilja þingsins?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka