Landsnet hefur ákveðið að kæra ákvörðun Sveitarfélagsins Voga sem hefur hafnað umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Landsnet vill loftlínu, en Vogar vildu jarðstreng. Landsnet telur náttúruhamfarir eina ástæðu þess að betra sé að hafa loftlínu.
Áður höfðu Grindavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær samþykkt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir sömu framkvæmd. Bæjarstjórn Voga sagði hins vegar í bókun sinni þegar leyfinu var hafnað að draga ætti úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar með að leggja línuna í jörð.
Í tilkynningu frá Landsneti segir að kæran byggi á því að öll skilyrði laga fyrir veitingu framkvæmdaleyfis hafi verið uppfyllt og höfnun Voga sé ólögmæt, „auk þess sem hún vekur upp mörg álitamál sem nauðsynlegt er að fá skorið úr um“.
Haft er eftir Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, að framkvæmdin sé mikilvæg til að tryggja raforkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum. „Þrjú af fjórum sveitarfélögum sem línan mun liggja um, og nær allir landeigendur, hafa samþykkt lagningu hennar. Ákvörðun Voga að hafna framkvæmdaleyfinu, þrátt fyrir að Landsnet hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis, voru því vonbrigði og setur verkefnið í uppnám,“ er haft eftir Guðmundi.
Í tilkynningunni segir jafnframt að loftlínuvalkosturinn, sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir, tryggi best afhendingaröryggi raforku af þeim kostum sem voru skoðaðir. „Rannsóknir við undirbúning verkefnisins sýna að svæðið er útsett fyrir jarðskjálftum og eldgosum sem gerir það að verkum að jarðstrengskostur er ekki góður á þessu landsvæði. Hætta er á að hraunrennsli og miklar hreyfingar á landinu skemmi jarðstreng en loftlínur þola umtalsverða hreyfingu auk þess sem hægt er að verja möstrin fyrir hraunrennsli með varnargörðum. Líkurnar á því að unnt verði að tryggja öruggt rafmagn við erfiðar aðstæður á Reykjanesi eru því mun meiri með loftlínu,“ segir í tilkynningu Landsnets. Þá er bent á að jarðstrengur feli einnig í sér umtalsverðan viðbótarkostnað.