Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smittölur gærdagsins vonbrigði en þær ættu ekki að koma á óvart. Þá er uppi grunur um að fjögur kórónuveirusmit sem greindust á vinnustað í Þorlákshöfn um helgina tengist smiti í Vallaskóla á Selfossi. Útlit er fyrir að dágóður fjöldi þurfi að fara í sóttkví vegna smitanna sex sem greindust utan sóttkvíar í gær.
„Það voru náttúrulega vonbrigði að sjá þessar tölur. Á föstudag og laugardag greindust engir utan sóttkvíar og við vonuðumst til þess að það yrði áfram. Á móti kemur að þetta þarf ekki að koma neitt gríðarlega á óvart vegna þess að við erum búin að tala um það að veiran er þarna einhvers staðar úti. Þetta er það sem getur gerst á vinnustöðum eða í skólum eða annað slíkt þar sem fólk er að hópast saman og gætir kannski ekki nógu vel að sér. Þá getur þetta komið upp,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Tvö smitanna sex sem greindust utan sóttkvíar í gær greindust á höfuðborgarsvæðinu. Hin fjögur greindust í Þorlákshöfn. Spurður um rakninguna segir Þórólfur að hún taki alltaf sinn tíma.
„Stundum þarf að leita eftir upplýsingum oftar en einu sinni til þess að fá betri mynd á þetta. Það liggur ekki alveg fyrir hversu margir þurfa að fara í sóttkví. Það er örugglega einhver dágóður fjöldi.“
Ekki er vitað til þess að smitin sem greindust í gær tengist hópsmiti á leikskólanum Jörfa. Spurður hvort útlit sé fyrir að náðst hafi utan um smitið á Jörfa segir Þórólfur:
„Næstu dagar verða að skera úr um það. Þetta getur skotið upp kollinum hér og þar. Þannig hefur þetta verið, það borgar sig ekki að hrósa neinu happi með það. Stundum heldur maður að það sé búið að ná utan um smitin en svo kemur eitthvað upp annars staðar þannig að þetta er bara brýning fyrir okkur öll að passa okkur hvar sem við erum, að gæta að okkur, fara eftir þessum grunnleiðbeiningum og fara eins fljótt og hægt er í sýnatöku við minnstu einkenni.“
Ert þú að íhuga að herða aðgerðir innanlands?
„Það er alltaf verið að skoða það hvenær kemur að því. Þetta voru tiltölulega fá smit í lok síðustu viku og fram á helgina. Nú er aftur smá afturkippur svo við verðum bara að sjá hvað gerist.“
Fimm manns liggja á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og er fólkið á mjög breiðu aldursbili, eða frá þrítugsaldri og upp í rúmlega sjötugt. Enginn er á gjörgæslu.