Þrátt fyrir samdrátt í launatekjum heimila á árinu 2020 er áætlað að ráðstöfunartekjur þeirra hafi aukist um 7,1% borið saman við fyrra ár. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið tæplega 4,2 milljónum króna á árinu 2020 og hafi aukist um 5,4% frá fyrra ári. Þá er áætlað að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hafi aukist um 2,5% á sama tímabili. Í mælingum á ráðstöfunartekjum heimilanna árið 2020 gætir merkjanlegra áhrifa kórónuveirufaraldursins og þeirra aðgerða sem gripið var til í þeim tilgangi að draga úr efnahagslegum áhrifum hans.
Hagstofan birtir nú í fyrsta skipti bráðabirgðatölfræði um ráðstöfunartekjur heimilanna samkvæmt aðferðafræði þjóðhagsreikninga en hingað til hafa fyrstu niðurstöður birst um 15 mánuðum eftir lok viðmiðunartímabils.
„Heildartekjur heimilanna jukust árið 2020 um 3% frá fyrra ári. Sá liður sem vegur þyngst í hækkun ráðstöfunartekna heimilisgeirans eru lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur sem áætlað er að hafi aukist um ríflega 105 milljarða frá fyrra ári eða um 27%. Þar af nam aukning í greiðslum almennra atvinnuleysisbóta ríflega 30 milljörðum króna auk greiðslna hlutaatvinnuleysisbóta sem áætlað er að hafi numið um 23,5 milljörðum króna á árinu. Í auknum félagslegum tilfærslum gætir einnig áhrifa annarra aðgerða stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins, meðal annars greiðslu sérstaks barnabótaauka.
Auknar lífeyristekjur heimila skýrast einkum af tímabundinni heimild til úttektar séreignarlífeyrissparnaðar sem áætlað er að hafi numið rúmlega 20 milljörðum króna á árinu 2020. Lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur námu um 18% af heildartekjum heimilanna árið 2020, samanborið við ríflega 14% árið 2019.
Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans drógust saman um 1% á árinu 2020 borið saman við fyrra ár sem skýrist meðal annars af auknu atvinnuleysi og aðgerðum stjórnvalda sem gerðu launagreiðendum kleift að fresta tímabundið skilum á tryggingagjaldi,“ segir á vef Hagstofu Íslands.
Launatekjur heimilanna drógust saman
Áætlað er að launatekjur heimila hafi dregist saman um 2% á milli áranna 2019 og 2020 en skattar á laun hafi dregist saman um 1% á sama tímabili. Skýrist samdráttur í launatekjum heimila einkum af auknu atvinnuleysi en samkvæmt áður birtum niðurstöðum þjóðhagsreikninga fækkaði starfandi einstaklingum á vinnumarkaði um 4% á árinu 2020 borið saman við fyrra ár. Í mælingum gætir jafnframt áhrifa kjarasamningsbundinna launahækkana auk óbeinna áhrifa aðgerða stjórnvalda gagnvart fyrirtækjum. Launatekjur heimilanna námu 58% heildartekna þeirra árið 2020 og hefur hlutdeild launatekna ekki verið lægri síðan árið 2014.
Eignatekjur heimila jukust um 2% á árinu 2020 borið saman við fyrra ár sem skýrist einkum af auknum innlánum en áætlað er að vaxtatekjur heimila hafi aukist um 12% á tímabilinu. Áætlað er að vaxtagjöld heimila hafi hins vegar dregist saman um 1% á árinu 2020 borið saman við fyrra ár.