Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, tekur þátt í heimsmeistarakeppninni í endurnýjanlegri orku. Fetar hún í fótspor samherja síns hjá frönsku meisturunum Lyon, Ada Hegerberg, sem setti keppnina á vegum Energi Norge.
Keppnin var sett af stað til að minna á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum og gera úr því góðlátlega keppni á milli landa, segir í tilkynningu frá Samorku.
Fyrirtækið hafi ákveðið að taka áskorun Energi Norge og taka þátt.
„Ísland stendur vel að vígi í þessari heimsmeistarakeppni. Ísland framleiðir eingöngu endurnýjanlega orku, en jarðefnaeldsneyti er enn notað í samgöngur. Alls eru 83% af allri orku sem notuð er innanlands endurnýjanleg. Það er hins vegar hægt að fara alla leið,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að orkuskipti í samgöngum séu grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið sé það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun.