Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid segja að áður hafi verið fjallað opinberlega um fasteignaviðskipti þeirra án þess að um það væru höfð stór orð, í skriflegu svari til mbl.is.
Kvað blaðamaður ljóst að formaður Eflingar hefði haft stór orð um útleigu fasteignar þeirra hjóna að Hringbraut, á 265 þúsund krónur og spurði hvað forsetahjónunum fyndist um ummæli Sólveigar Önnu, sem taldi þau vera þátttakendur í tryllingslegu gróðabraski.
„Fljótlega eftir að Guðni var kjörinn forseti fluttum við úr húseign okkar á Seltjarnarnesi og leigðum hana út. Í fyrra seldum við hana og um þetta hefur verið fjallað opinberlega án þess að um það væru höfð stór orð.“
Segir í kjölfarið að hluta söluverðsins hafi þau nýtt til að kaupa íbúð í Reykjavík sem þau sáu fyrir sér að selja þegar komið væri að næstu vistaskiptum þeirra.
„Við báðum fasteignasöluna, sem sá um fasteignaviðskipti okkar, að auglýsa íbúðina til leigu til að byrja með, gera það fyrir opnum tjöldum og leita eftir markaðsverði í þeim efnum. Við stefnum að því að eiga góð og farsæl samskipti við leigutaka eins og fyrri daginn,“ segir í skriflegu svari forsetahjónanna til mbl.is.