Skakkt „s“ skárra en „Ölfu“

S-ið hallar til vinstri.
S-ið hallar til vinstri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stærðarinnar skilti hefur verið sett upp við bæjarmörk sveitarfélagsins Ölfuss, sem áætlað er að kosti á bilinu 10 til 12 milljónir. Það er ekki bara stærð skiltisins sem vekur athygli en svo virðist sem S-ið á skiltinu sé skakkt.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir í samtali við mbl.is verktakana hafa áttað sig á mistökunum um leið og verkinu var lokið en betur þótti fara á að hafa S-ið skakkt en að taka það niður og láta „Ölfu“ eftir standa.

Verkið verður klárað hið snarasta og hafist verður handa við að laga S-ið jafnvel á morgun að sögn Elliða.

Glöggir tóku eftir mistökunum

Twitterverjar gáfu þessu gaum eftir umfjöllun Vísis um skiltið, sem er úr corten-stáli og steypu en mikið var lagt í hönnun þess að sögn Elliða. 

Eggert Jóhannesson ljósmyndari mbl.is renndi við og smellti mynd af skiltinu í kvöldsólinni og staðfesti grun twitterverja; svo virðist sem S-ið hallist til vinstri.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, bendir á undir twitterfærslu að S-ið á merki sveitarfélagsins hallast einnig til vinstri en óvíst er hvort það hafi leitt til mistakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka