Skáld og sagnfræðingur mætast

Í byrjun mars hreppti Kristín Svava Tómasdóttir tvenn Fjöruverðlaun, annars vegar fyrir ljóðabók sína Hetjusögur og hins vegar var hún meðal höfunda bókarinnar Konur sem kjósa: Aldarsaga sem hlaut verðlaunin sem fræðibók ársins. Hún sagði Árna Matthíassyni að hún hafi verið heilluð af texta frá barnsaldri.

Auk þess að vera ljóðskáld er Kristín menntaður sagnfræðingur og segja má að í ljóðabókinni Hetjusögum mætist skáld og sagnfræðingur, en hún vann ljóðabókina upp úr ritröðinni Íslenskar ljósmæður I-III sem Sveinn Víkingur tók saman og Kvöldvökuútgáfan gaf út í upphafi sjöunda áratugarins. Hún segist hafa lesið þær fyrst fyrir þó nokkrum árum og fundist þær „gjörsamlega æðislegar“ þótt hún hafi ekki séð þær fyrir sem efnivið í ljóð.

„Svo las ég þær aftur fyrir svona tveimur árum, þá í samhengi sagnfræðiverkefnis, skömmu eftir að ég var búin að lesa ýmsa aðra þætti, nýbúin að lesa Forystufé, sem var endurútgefin um þetta leyti, og Hrakninga á heiðarvegum. Þess vegna fór ég að hugsa um formið, að hugsa um þessa þætti sem texta og sem frásagnir um byggingu þeirra og stefin í þeim. Fór bara að velta þeim fyrir mér sem bókmenntaverki ekki síður en sem sagnaheimild.

Ég hef alltaf verið hrifin af stefjum og endurtekningum í ljóðlist, held að það tengist því eitthvað hvað mér finnst skemmtilegt að lesa upp af því þetta er partur af rytmanum í ljóðlistinni. Ég hef svolítið verið að vinna með það eins og í Stormviðvörun, sem var næsta ljóðabók á undan, og þarna kviknaði þessi hugmynd; af hverju tek ég þetta ekki alla leið og læt mætast þarna þetta form sem mér finnst svo skemmtilegt, þessi stef, og stefin úr frásögnum þessara ljóðmæðra, prófa að púsla þessu saman. Þannig að þetta var innblásið úr ýmsum áttum.“

Dagmál eru þættir sem aðgengilegir eru áskrifendum Morgunblaðsins og má nálgast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert