Karítas Ríkharðsdóttir
Skúli Magnússon var kjörinn umboðsmaður Alþingis til fjögurra ára í leynilegri atkvæðagreiðslu á Alþingi rétt í þessu.
49 þingmenn greiddu kjöri hans atkvæði, 4 greiddu ekki atkvæði. Ekki var hægt að greiða atkvæði á móti.
Skipunartími hans hefst 1. maí 2021 og nær til 30. apríl 2025.
Umsækjendurnir voru: Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrverandi héraðsdómari, Ástráður Haraldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og settur umboðsmaður, og Skúli Magnússon, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Áslaug Björgvinsdóttir dró síðar til baka umsókn sína um starfið.
Undirnefnd forsætisnefndar, skipuð Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, Guðjóni S. Brjánssyni, fyrsta varaforseta, og Bryndísi Haraldsdóttur, sjötta varaforseta, skipaði ráðgjafarnefnd, sem var undirnefndinni innan handar við að gera tillögur til forsætisnefndar um hver skyldi valinn.
Eftirtaldir sérfræðingar skipuðu ráðgjafarnefndina: Helgi I. Jónsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sem var jafnframt formaður nefndarinnar, Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og mannauðsstjóri Deloitte, og Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar var Heiðrún Pálsdóttir, ritari forseta Alþingis.