Sorpa hættir að taka við svörtum ruslapokum

Sorpa mun ekki taka á móti svörtum ruslapokum frá og …
Sorpa mun ekki taka á móti svörtum ruslapokum frá og með 1. júlí. Ljósmynd/Sorpa

Viðskiptavinum Sorpu verður meinað að koma með úrgang og endurvinnsluefni í svörtum ruslapokum frá og með 1. júlí. Í staðinn eiga þeir að setja úrganginn í glæra poka. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Sorpa birti í dag. Tilgangurinn með þessum aðgerðum er að takmarka það magn af endurvinnanlegu efni sem viðskiptavinir Sorpu skila frá sér í gáma fyrir blandaðan úrgang. Samkvæmt Sorpu væri hægt að endurvinna ríflega helminginn af öllu efni sem viðskiptavinir skila til urðunar ef því væri skilað á réttan stað.       

Sorpa fagnar 30 ára afmæli í dag og í tilefni dagsins ætlar fyrirtækið að gefa öllum viðskiptavinum endurvinnslustöðva þess glæran poka. Þetta er gert til að leggja áherslu á reglubreytingarnar og auðvelda fólki umskiptin. Einnig verður bráðlega hægt að kaupa glæru pokana í helstu stórverslunum á höfuðborgasvæðinu sem og á endurvinnslustöðvum Sorpu. „Það er stór dagur í lífi allra og okkur þykir á þessum tímamótum rétt að undirstrika enn stuðning okkar við hringrásarhagkerfið með þessum áherslum,“ er haft eftir Jóni Viggó Gunnarssyni, framkvæmdastjóri Sorpu, um breytinguna.

Verslun Góða hirðisins við Hverfisgötu 94-96 verður einnig opnuð aftur í tilefni dagsins en þeirri verslun var lokað tímabundið vegna framkvæmda. Verslunin var opnuð 19. nóvember í fyrra í tilraunaskyni en samkvæmt Sorpu var ákveðið að halda áfram rekstri hennar. „Aukin áhersla á endurnot með útibúi Góða hirðisins við Hverfisgötu er auk þess mikilvægur stuðningur við endurnot í hringrásarhagkerfinu,“ er jafnframt haft eftir Jóni í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert