Svör um leghálssýni í vikunni

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Arnþór

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar, sagði í dag að tilfærsla þjónustu á skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini til heilsugæslunnar hafi verið góð breyting. Hún segir þó allt of marga hnökra hafa komið upp varðandi framkvæmd og upplýsingagjöf og hafi orðið ákveðið rof eða töf á þjónustunni um tíma.

„Ekki sér fyrir endann á þessu breytingaferli og það hefur dálítið verið þannig að þegar einn vandi leysist birtist annar,“ sagði Líneik Anna sem óskaði eftir sérstakri umræðu um málið við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og fór hún fram í dag. 

Hún kveðst hafa óskað eftir umræðunni til að dýpka hana og upplýsa, en miklar umræður hafa farið fram á samfélagsmiðlum og hópar verið stofnaðir til þess. 

Áhyggjur af fjölda milliliða 

„Ég hef líka ákveðnar áhyggjur af of mörgum milliliðum í meðhöndlun sýna í því fyrirkomulagi sem nú er með rannsóknirnar. Skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini varðar allar konur landsins — já og eiginmenn, feður, bræður og syni. Skimunin hefur snertifleti við öll heimili landsins og þar með mikil áhrif á traust til heilbrigðisþjónustunnar í heild,“ sagði Líneik Anna. 

Í febrúar árið 2020 fór fram sérstök umræða um þá fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulagi skimananna, þá að frumkvæði Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns Framsóknar.

Þar kom skýrt fram hjá hæstvirtum heilbrigðisráðherra að þessi þjónusta þarf að vera áreiðanleg og byggja á bestu þekkingu á hverjum tíma og einnig er mikilvægt að hún sé aðgengileg um land allt í samfellu,“ sagði Líneik Anna. 

Býst við svörum í vikunni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í ræðu sinni að mögulega verði leghálssýni greind hér á landi í stað þess að þau verði send til Danmerkur. 

Síðan komu fram þær vangaveltur og athugasemdir frá ýmsum læknum og öðrum á Landspítala sem vísað hefur verið til í umræðunni. Þess vegna þótti mér rétt að kanna hvort afstaða spítalans hefði breyst. Svar barst við því erindi og núna er það til umsagnar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ég býst við að fá svör frá heilsugæslunni í þessari viku. Það kynni því að koma til þess að rétt væri að þjónustan væri innt af hendi hér,“ sagði Svandís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert