Læknafélag Íslands (LÍ) og Læknafélag Reykjavíkur (LR) telja að reglugerð sem heilbrigðisráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda skorti lagastoð.
Fjallar hún um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna, sem starfa án samnings við SÍ.
„Samningsleysi við veitendur heilbrigðisþjónustu hvorki getur né má leiða til þess að sjúkratryggðir verði sviptir lögvörðum sjúkratryggingum sínum samkvæmt lögum um sjúkratryggingar,“ segir í umsögn LÍ og hvetur félagið heilbrigðisráðherra jafnframt til að gefa SÍ fyrirmæli um að leita samninga við sérgreinalækna.
Í reglugerðinni er sett skilyrði um að læknar innheimti hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna þjónustu frá SÍ. Líta félögin svo á að með reglugerðinni skauti stjórnvöld framhjá skyldu SÍ til þess að endurgreiða sjúkratryggðum útlagðan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu samkvæmt gjaldskrá, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.