Kjartan Arnald Hlöðversson, tónlistarmaður og áhugaljósmyndari, fór gagngert að gosstöðvunum í Geldingadölum í gær til þess að festa gosið á filmu með norðurljós í baksýn. Hann hafði reynt það áður á fyrstu dögum gossins en ekki haft erindi sem erfiði.
„Svo í gær næ ég bara þessum stórfenglegu myndum,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is.
Að sögn Kjartans, sem er sérlegur áhugamaður um norðurljós, var norðurljósaspáin í gærkvöldi ansi hagstæð og því ákvað hann að slá til. Myndbandið hér að neðan er svokallað timelapse-myndband, þar sem langri myndbandsupptöku er þrýst saman í styttri upptöku svo sjá má á stuttum tíma atburðarrás sem tók jafnvel fleiri klukkustundir.
„Ég var kominn þarna upp á fjallið um klukkan hálfellefu í gærkvöldi og setti upp græjurnar mínar. Síðan settist ég bara í brekkuna og naut þess að fylgjast með gosinu. Ég var svo farinn að gera mig líklegan til að pakka saman og koma mér heim þegar ég sé einhvern grænan bjarma á himninum yfir gosinu og hjartað tók bara kipp.“
Kjartan útskýrir að hann sé fyrst og fremst tónlistarmaður og að hann hafi lengi haft áhuga á ljósmyndun samhliða því. Einnig vaknaði skyndilega hjá honum ástríða fyrir norðurljósum fyrir um tveimur árum.
„Já, ég er svona fyrst og fremst tónlistarmaður en hef lengi haft áhuga á ljósmyndun líka. Svo er náttúrulega bara Covid og þá eru engin gigg, þannig ég lofaði mér að koma sterkari út úr Covid en ég fór inn í það og því ákvað ég að hella mér út í ljósmyndun og læra allt sem ég gat.“
Kjartan heldur úti instagram-síðu þar sem sjá má afraksturinn: fallegar myndir og myndbönd af því sem fyrir augu ber á næturhimninum og eru norðurljós þar í aðalhlutverki.