Smitin sem greindust í Þorlákshöfn í gærkvöldi tengjast vinnustað í bænum. Útlit er fyrir að einhverjir þeirra fjögurra sem greindust smitaðir séu ekki búsettir í Þorlákshöfn. Fleiri smit hafa ekki greinst síðan í gærkvöld og vonar Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, að smitin hafi ekki náð að breiðast út.
„Flest bendir til þess að einhver hluti af þessum fjórum sé ekki búsettur í Þorlákshöfn. Sem fyrr erum við að vona að íhlutun hafi verið það snemmtæk að það hafi náðst utan um þetta og það sé takmörkuð samfélagsleg útbreiðsla en að sjálfsögðu vitum við það ekki enn þá,“ segir Elliði í samtali við mbl.is.
Elliði segir að myndin sé að skýrast og það ótrúlega hratt.
„Það sýnir hversu magnað teymi við eigum í kringum þetta og hvað öryggið er í raun og veru mikið fyrir vikið.“
Skerpt hefur verið á almennum sóttvarnareglum í Þorlákshöfn vegna smitanna.
„Við höfum tekið þær alvarlega allan tímann en í ljósi þess að þetta tengist vinnustað í Þorlákshöfn þá skerpum við á þessu, reynum að herða á spritti og grímunotkun. Við reynum að takmarka heimsóknir í stofnanir, samgang á milli bekkja í grunnskólum og þess háttar því allur er varinn góður en við vonum að það hafi náðst hratt utan um þetta.“