Guðmundur Hallgrímsson, fv. rafverktaki á Fáskrúðsfirði, lést 23. apríl sl., 84 ára að aldri.
Guðmundur fæddist 19. maí 1936 í Hafnarnesi við Fáskrúðsfjörð. Foreldrar hans voru Hallgrímur Scheving Bergsson útgerðarmaður, d. 1975, og Valgerður Sigurðardóttir húsfrú, d. 2000. Systkini Guðmundar eru Bergur, Svava, Jóhanna, Már og Jóna Hallgrímsbörn. Eftirlifandi eru þær Svava og Jóna.
Guðmundur vann sem rafverktaki vel fram yfir sjötugt, auk þess sem hann var starfandi í slökkviliði Fáskrúðsfjarðar, síðar Fjarðabyggðar, fram að sjötugu.
Útivist, íþróttir og hvers kyns veiðiskapur var Guðmundi hugleikinn alla tíð. Hann vakti athygli fyrir að keppa á samtals 18 landsmótum UMFÍ fyrir héraðssamband sitt, UÍA. Fyrsta landsmótið hans var árið 1955 á Akureyri og það síðasta sömuleiðis í höfuðstað Norðurlands, sumarið 2009, þegar Guðmundur var 73 ára. Eftir það tók hann þátt í nokkrum landsmótum UMFÍ fyrir 50 ára og eldri. Keppti Guðmundur jafnan í hlaupum og stökkum, vann til fjölda verðlauna og setti mörg met á keppnisferlinum. Íslandsmet hans í 200 m hlaupi í 50 ára flokki stendur enn, 25,06 sek. sett 1988.
Í viðtali við Morgunblaðið 13. júlí 2009 lét Guðmundur hafa eftir sér að hann hefði aðeins misst af einu landsmóti, þ.e. á Laugarvatni 1965, en þá hafði hann nýlega eignast tvíbura. „Ég hef alltaf jafn gaman af þessu. Þetta er eitt allra skemmtilegasta mótið, keppnin skemmtileg, umgjörðin góð og veðráttan einstök,“ sagði Guðmundur um landsmót UMFÍ 2009.
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Dóra M. Gunnarsdóttir húsmóðir, f. 1943. Börn þeirra eru Gunnar Vignir, f. 1963, maki Hugrún Ingimarsdóttir, tvíburasysturnar Birna, f. 1965, maki Kristján Jónsson, og Kristín, maki Guðlaugur Björn Birgisson. Yngst er Jóhanna Vigdís, f. 1969, maki Marteinn Már Guðgeirsson. Barnabörnin eru 11 og barnabarnabörnin fimm.