Velferðarsvið Reykjavíkurborgar gerir athugasemdir við frétt sem birt er í Morgunblaðinu í dag, þriðjudaginn 27. apríl, og varðar smáhýsaverkefni Reykjavíkurborgar. Í fréttinni er verkefnið harðlega gagnrýnt af borgarfulltrúum og segir einn þeirra smáhýsi í þeirri mynd sem þau eru nú rekin vera „ekkert annað en neyslurými“ sem auka mun enn á vandann. Þá var mikill kostnaður vegna verkefnisins einnig gagnrýndur og bent á að fermetraverð á smáhýsi hljóti að vera yfir einni milljón króna.
Einnig kemur fram í fréttinni að yfir 20 smáhýsi standi nú á geymslusvæði Reykjavíkurborgar í Skerjafirði. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa þau staðið þar óupphituð og afskipt í rúmt ár. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, er einn þeirra sem gagnrýnir verkefnið. „Ég gæti trúað því að fermetraverð smáhýsis sé yfir einni milljón. Svo dagar þau bara uppi á geymslusvæði. Þetta er mjög sorglegt,“ segir hann meðal annars.
Allir íbúar smáhúsa á Gufunesi eru með þjónustusamning við Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar (VoR teymi) og einstaklingsbundinn stuðning. Enginn þeirra er án stuðnings.
VoR-teymið sinnir daglegum vitjunum í smáhúsin í Gufunesi og sama gildir um smáhýsin að Fiskislóð. Því er ekki rétt að einstaklingur hafi ekki fengið þjónustu eða innlit í heilt ár. Verkefnum VoR-teymisins hefur fjölgað með tilkomu nýrra smáhúsa og stuðningur almennt við íbúa smáhýsa.
Þegar heimilislaust fólk fær heimili er alltaf í því fólgin skaðaminnkun.
Smáhúsin eru heimili fólks en ekki neyslurými. Neyslurými er formlegt skaðaminnkandi inngrip og því er hér ekki um sama hlutinn að ræða.
Smáhúsin í Gufunesi voru sett niður í desember 2020 og þjónustan þar er í þróun. Að mati velferðarsviðs er ótímabært að fella dóm um hvernig til hefur tekist.
Þá segir í sömu frétt að almennt gangi illa að útvega lóðir fyrir smáhýsi í Reykjavík. Það sé þó horft til uppbyggingar smáhýsa í Laugardal, Ártúnshöfða, Vogabyggð og Hlíðahverfi.
Nálgast má umrædda frétt Morgunblaðsins í heild sinni hér sem og frétt um vandamál tengd smáhýsunum í Gufunesi.