„Þetta eru vonbrigði en þessi veira fer ekki í manngreinarálit og getur stungið sér niður hvar sem er. Þá er þetta eina leiðin til að bregðast við,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, um kórónuveirusmit sem eru komin upp í Þorlákshöfn og hjá fólki sem þar starfar en er búsett annars staðar. Grunnskólanum í Þorlákshöfn hefur verið lokað vegna þessa.
Tala smita hefur ekki verið gefin upp.
„Það væri óábyrgt að segja tölu nú í morgunsárið því hún er klárlega orðin önnur en hún var í gær,“ segir Elliði.
„Seint í gærkvöldi var komin upp sú staða að smitrakningarteymið lagði til að við myndum loka grunnskólunum. Það er gert þrátt fyrir að ekkert barn sé komið með staðfest smit. Vegna þess að þetta breska afbrigði virðist vera eins og eldur í sinu þarf kannski að ganga aðeins lengra en áður,“ segir Elliði.
Bæjaryfirvöld vildu grípa til meiri aðgerða og hafa þau því beðið foreldra leikskólabarna að halda þeim heima á meðan málin eru að skýrast, ef foreldrarnir hafa tök á því.
„Það er samfélagslega þyngra að loka leikskólum vegna þess að það eru til að mynda viðbragðsaðilar, svo sem læknar, hjúkrunarfræðingar og slökkviliðsmenn, með börn á leikskóla. Þess vegna höfðum við til þessarar samfélagslegu ábyrgðar fyrst, en það kann að koma upp sú staða að við lokum leikskólunum líka. Það er þá fyrst og fremst gert ef það er óskað eftir því af þessum viðbragðsaðilum sem stjórna aðgerðum.“
Spurður hvort bæjarbúar séu tilbúnir í að taka þátt í aðgerðunum segir Elliði:
„Algjörlega og undantekningalaust. Hjá okkur, eins og víðar, er mjög rík samstaða. Við höfum líka orðið svo djúpan skilning á stöðunni og vitum að þetta er eina leiðin til þess að bregðast við þegar upp er komið útbreitt smit.“
Nokkuð stór hópur fólks er kominn í úrvinnslusóttkví vegna smitanna.
Þá á eftir að koma í ljós hversu lengi grunnskólinn í Þorlákshöfn verður lokaður. Elliði segir að öllum upplýsingum verði miðlað til foreldra hvað það varðar eins fljótt og hægt er.
„Reglan er einföld: það sem einn veit það vita allir.“